Í myndskeiði sem hann birti í dag segir Kadyrov liðsmenn hugrakka og mikilsverða, ekki síst vegna þekkingar sinnar á svæðinu þar sem barist er.
„Ef þið gangið til liðs við okkur heiti ég því að gefa ykkur meira, skapa betri aðstæður, en þið hafið í dag. Við munum reyna að gera allt fyrsta flokks fyrir ykkur,“ segir hann í ávarpi sínu til Wagner-liða.
Kadyrov birti einnig bréf til Pútín þar sem hann biðlar til forsetans um að fyrirskipa tilfærslu Akhmat-sveita annars staðar í Úkraínu til Bakhmut, til að leysa Wagner af hólmi.
Wagner PMC is transferring their combat positions to Kadyrov's men, - Prigozhin.
— Anton Gerashchenko (@Gerashchenko_en) May 6, 2023
It seems that the private armies are fighting - Wagner, kadyrovites... What's Russian army doing? pic.twitter.com/7GashMD9RI
Yevgeny Prigozhin, stofnandi og leiðtogi Wagner, sagði í dag að hann hygðist láta Kadyrov eftir framlínur Wagner-liða frá og með 10. maí. Ekki var annað að skilja en að Kadyrov hefði gengið að boðinu.
Prigozhin sagðist þegar eiga í samræðum við fulltrúa Kadyrov, til að koma því í kring að sveitir hans yrðu reiðubúnar til að taka yfir nákvæmlega þegar Wagner-liðar yrðu uppiskroppa með aðföng og gætu ekki haldið áfram að berjast.
Hann segðir það munu gerast 10. maí.
Prigozhin hefur verið afar ósáttur við stjórnvöld í Moskvu síðustu misseri og segir þau hafa svikið liðsmenn sína um vopn og skotfæri. Á sama tíma hafi þeir verið hryggjarstykkið í átökunum um Bakhmut.
Kadyrov sagði í gær að hann myndi glaður taka yfir fyrir „stóra bróður“, það er að segja Prigozhin. En líkt og erlendir miðlar hafa bent á er erfitt að spá fyrir um hvað gerist 10. maí þar sem bæði Kadyrov og Prigozhin eru þekktir fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar sem eiga sér ekki endilega stoð í raunveruleikanum.