Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við Vísi. Þyrlur gæslunnar hafa vakið athygli borgarbúa í dag þar sem þær sveima yfir hverfum borgarinnar. Ásgeir segir þær þar við eftirlitsstörf fyrir lögreglu vegna leiðtogafundarins í Hörpu.
Eins og fram hefur komið er gríðarleg öryggisgæsla yfirvalda vegna fundarins í Hörpu sem fjölmörg alþjóðleg lögregluembætti koma að ásamt því íslenska. Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið nýttar til eftirlits í Reykjavík auk varðskipsins Þór.
Lögregluyfirvöld hafa ekki gefið upp hve margir lögreglumenn eru við öryggisgæslu við tónlistarhúsið en Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að um hundrað sérfræðingar frá norðurlöndum væru hér við gæslu.
Ásgeir segir að færi það þannig að þyrlurnar væru vant við látnar við eftirlitsstörf í samstarfi við lögreglu þegar útkall berst til gæslunnar verði danska þyrlan til taks.
„Ef þannig staða kæmi upp þá getum við leitað til Dana sem gætu þá hlaupið í skarðið,“ segir Ásgeir. Staðan sé metin hverju sinni.
„Við höfum þá þessa þriðju þyrlu til taks sem er um borð í danska varðskipinu og getum kallað það út til þess að sinna leit og björgun eða sjúkraflutningum, hvort sem er á sjó eða landi.“