Það hefur verið nóg um að vera á skrifstofunni hjá körfuknattleiksdeild Grindavíkur að undanförnu. Karlalið félagsins hefur samið við fjóra nýja leikmenn fyrir næsta tímabil og nú er búið að sækja styrkingu í kvennaliðið sömuleiðis.
Fyrr í dag var greint frá því að Ólöf Rún Óladóttir hefði skrifað undir samning við Grindavík um að leika með liðinu í Subway-deildinni á næsta tímabili. Ólöf Rún kemur til Grindavíkur frá Keflavík þar sem hún hefur leikið undanfarin tímabil en hún er uppalin í Grindavík.
Ólöf Rún var hluti af liði Keflavíkur sem varð deildarmeistari í Subway-deildinni í vetur. Hún var með 4,6 stig, 2,5 fráköst og 1,6 stoðsendingar að meðaltali í vetur en hún leikur í stöðu bakvarðar.
Í gær samdi Grindavík við þýsk-bandaríska framherjann Charisse Fairley um að leika með liðinu á næstu leiktíð en Grindavík hafnaði í 5. sæti Subway-deildarinnar í vetur og komst ekki í úrslitakeppnina.