ÍBV hefur unnið alla sjö leiki sína í úrslitakeppninni og getur sett punktinn yfir i-ið með því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Haukum í Eyjum í kvöld.
Þrjú lið hafa afrekað það að vinna alla leiki sína í úrslitakeppni karla á Íslandi, tvö í átta liða úrslitakeppni og eitt í fjögurra liða.
Haukar urðu fyrstir til að vinna alla leiki sína í úrslitakeppninni 2005. Þá unnu þeir FH í átta liða úrslitum, 2-0, Val í undanúrslitum, 2-0, og ÍBV í úrslitum, 3-0. Á árunum 2004 og 2005 töpuðu Haukar aðeins einum af fjórtán leikjum sínum í úrslitakeppninni. Páll Ólafsson var þjálfari Hauka bæði árin.
HK vann alla leiki sína í úrslitakeppninni 2012 þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn. HK tryggði sér sæti í fjögurra liða úrslitakeppni í síðustu umferð deildakeppninnar en vann svo Hauka og FH, bæði 3-0, í úrslitakeppninni. Annar þjálfara HK var Erlingur Richardsson, núverandi þjálfari ÍBV.
Haukar urðu einnig Íslandsmeistarar eftir að hafa unnið alla leiki sína í úrslitakeppninni 2015. Haukar, undir stjórn Patreks Jóhannessonar, enduðu bara í 5. sæti Olís-deildarinnar en voru óstöðvandi í úrslitakeppninni. Þar unnu þeir FH, 2-0, Val, 3-0, og Aftureldingu, 3-0.
ÍBV getur nú komist í þennan fámenna en góðmenna hóp með sigri á Haukum í kvöld.
Fimm lið hafa aðeins tapað einum leik í úrslitakeppninni: Valur 1993, Haukar 2004, ÍBV 2018, Selfoss 2019 og Valur 2022.
Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 18:30.