Körfubolti

Barðist við tárin fyrir leik en skoraði svo 45 stig gegn gamla liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic sýndi gamla liðinu sínu enga miskunn.
Luka Doncic sýndi gamla liðinu sínu enga miskunn. getty/Sam Hodde

Luka Doncic gat ekki haldið aftur af tárunum fyrir endurkomu sína til Dallas. Hann var þó fljótur að núllstilla sig og skoraði 45 stig þegar Los Angeles Lakers vann gamla liðið hans, 97-112, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Doncic sneri í nótt aftur til Dallas í fyrsta sinn eftir að honum var óvænt skipt til Lakers.

Fyrir leik var langt myndband til heiðurs Doncic spilað. Slóveninn var greinilega djúpt snortinn og felldi tár þegar hann horfði á myndbandið.

Doncic var þó snöggur að koma sér í gírinn fyrir leikinn og var besti maður vallarins þegar Lakers tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með fimmtán stiga sigri.

Doncic skoraði 45 stig, tók átta fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum í leiknum.

„Allir sáu hvernig ég brást við myndbandinu. Allir þessir stuðningsmenn. Ég kann að meta þetta. Allir sem ég spilaði með, allir studdu við bakið á mér. Ég er bara glaður. Ég elska þessa stuðningsmenn, þessa borg en við þurfum að halda áfram,“ sagði Doncic.

LeBron James skoraði 27 stig fyrir Lakers, þar af þrettán í 4. leikhluta. Rui Hachimura var með fimmtán stig.

Ef Lakers vinnur annan af síðustu tveimur leikjum sínum í deildarkeppninni tryggir liðið sér 3. sætið í Vesturdeildinni. Lakers á eftir að spila við Houston Rockets á heimavelli og Portland Trail Blazers á útivelli.

Naji Marshall skoraði 23 stig fyrir Dallas sem er í 10. sæti Vesturdeildarinnar og fer í umspil um sæti í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×