Ólafur Jónas Sigurðsson, Emil Barja og Daníel Andri Halldórsson verða aðstoðarþjálfarar landsliðsins næstu tvö árin, samkvæmt frétt á vef KKÍ í dag.
Allir hafa þeir þjálfað í Bónus-deild kvenna í vetur en Ólafur Jónas er þjálfari Stjörnunnar, Emil þjálfari Hauka og Daníel Andri þjálfari Þórs á Akureyri.
Fyrsta verkefni þeirra verður 14.-24. ágúst þegar íslenska landsliðið kemur saman í æfingabúðir, til undirbúnings fyrir undankeppni EuroBasket 2027. Dregið verður í riðla 23. júlí næstkomandi og mun drátturinn fara fram í München í Þýskalandi.
Fyrstu leikirnir verða í landsleikjaglugganum sem verður spilaður 12.-18. nóvember. Það verða þá fyrstu mótsleikirnir undir stjórn Pekka Salminen sem er 61 árs og hefur komið víða við á ferlinum. Hann þjálfaði meðal annars kvennalandslið Finnlands árunum 2015-23 og var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins 2001-14.