Hun Sen, forsætisráðherra Kambódíu, hótaði því að berja pólitíska keppinauta sína og senda „glæpona“ heim til þeirra í myndbandi sem hann birti á Facebook-síðu sinni í janúar. Meta, móðurfélag Facebook, taldi myndbandið brjóta gegn notendaskilmálum samfélagsmiðilsins en ákvað að leyfa því að standa á þeirri forsendu að það væri fréttnæmt.
Sérstök eftirlitsnefnd sem á að vera óháð Meta en er fjármögnuð af fyrirtækinu komst að þeirri niðurstöðu í dag að skaðinn af myndbandinu væri meiri en fréttagildi þess. Hun Sen ætti að sæta banni í hálft ár fyrir að birta það.
Meta féllst á að fjarlægja myndbandið umdeilda en segist ætla að skoða frekar hvort það bannar forsætisráðherrann tímabundið, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Farinn yfir á Telegram
Fallist fyrirtækið á að banna Hun Sen verður opinber Facebook-síða hans lokuð í aðdraganda kosninga sem fara fram í júlí. Gagnrýnendur hans segja að þær kosningar verði þó hvorki frjálsar né sanngjarnar vegna valdboðstilhneigingar sitjandi forsætisráðherrans.
Hun Sen, sem hefur setið í embætti í aldarfjórðung, hótaði því fyrr í þessum mánuði að breyta lögum þannig að þeim sem kjósa ekki í kosningunum verði bannað að bjóða sig fram til embætta í framtíðinni.
Hun Sen hefur verið afar virkur á Facebook. Auk ofbeldishótana í garð keppinauta birtir hann þar myndir af barnabörnunum sínum, að sögn AP-fréttastofunnar. Hann sagðist í gær ætla að segja skilið við miðilinn og nota frekar samskiptaforritið Telegram þar sem auðveldara væri að ná til fólks þar. Niðurstaða eftirlitsnefndarinnar var ekki opinber þegar hann greindi frá þessum vistaskiptum.
Eftirlitsnefnd Meta hefur áður sett ofan í við stjórnendur Facebook. Þrátt fyrir að hún teldi að það hefði verið rétt að setja Donald Trump í straff eftir árás stuðningsmanna hans á bandaríska þinghúsið árið 2021 gagnrýndi nefndin að bannið hefði verið ótímabundið.
Eftir að stuðningsmenn Jairs Bolsonaro í Brasilíu öpuðu upp athæfi stuðningsmanna Trump eftir kosningar þar í fyrra taldi nefndin að viðbrögð Meta við ofbeldishótunum þá hefði verið ábótavant.