Sex íhaldsmenn við Hæstarétt Bandaríkjanna töldu að kristinni konu sem rekur vefhönnunarfyrirtæki í Colorado væri heimilt að hafna því að hanna vefsíðu fyrir brúðkaup samkynhneigðra á föstudag. Dómurinn er talinn bakslag fyrir réttindi hinsegin fólks í Bandaríkjunum.
Þegar Lorie Smith, eigandi fyrirtækisins 303 Creative, höfðaði mál sitt á sínum tíma bauð hún ekki upp á hönnun vefsíðna fyrir brúðkaup og hafði ekki fengið neina ósk frá samkynja pari. Hún vildi hins vegar fá úrskurð dómstóla um að henni væri ekki skylt að gera það þrátt fyrir að ríkislög í Colorado bönnuðu fyrirtækjum að mismuna viðskiptavinum á grundvelli kynhneigðar.
Degi eftir að Smith lagði málið fram og deilt var um hvort að hún hefði lögvarinna hagsmuna að gæta héldu lögmenn Smith því fram að þó að það væri ekki forsenda fyrir því að hún gæti höfðað málið þá hefði henni borist ósk um að gera vefsíðu fyrir brúðkaup samkynhneigðs pars.
„Fullyrðingar um að Lorie fái aldrei beiðnir um að búa til vefsíður sem fagna samkynja athöfn eiga ekki lengur rétt á sér því að Lorie hefur fengið slíka beiðni,“ sögðu lögmennirnir í febrúar árið 2017.
Giftur konu í hálfan annan áratug
Maðurinn sem lögmenn Smith nefndu þessu til stuðnings kemur af fjöllum. Í stefnu Smith og greinargerð var maðurinn aðeins nefndur „Stewart“ en símanúmer hans og tölvupóstfang fylgdu með. Hann segist aldrei hafa óskað eftir þjónustu Smith og að hann hafi ekki vitað að hann væri nefndur í málsókn hennar fyrr en blaðamaður hafði samband við hann nýlega.
„Ég var ótrúlega hissa í því ljósi að ég hef verið hamingjusamlega giftur konu undanfarin fimmtán ár,“ sagði maðurinn við AP-fréttastofuna. Hann furðar sig á að enginn hafi staðreynt að beiðnin væru raunveruleg áður en málið fór alla leið fyrir æðsta dómstól landsins.
Nafn Stewart var nefnt í greinargerð lögmanna Smith til hæstaréttar. AP segir að svo virðist sem að hann sé ekki nefndur í dómi réttarins.
Kristen Waggoner, lögmaður Smith, neitaði því að beiðnin sem var lögð fram væri uppspuni. Óumdeilt væri að beiðnin hefði borist. Mögulega hefði einhver ætlað að atast í Smith. Það hefði ekki þýðingu í málinu hvort að beiðnin væri ósvikin eða ekki.
Phil Weiser, dómsmálaráðherra Colorado, sagði mál Smith tilbúning vegna þess að hún hafi ekki boðið upp á þjónustuna sem um ræðir þegar hún höfðaði málið. Hæstiréttur hefði ekki átt að taka mál til efnislegrar umfjöllunar sem ætti sér ekki neina stoð í raunveruleikanum.

Ekki talið skipta máli
Washington Post segir að svo virðist sem að dómararnir hafi ekki talið það skipta sköpum hvort að Smith hefði fengið beiðni frá samkynhneigðu pari eða ekki. Frjálslyndu dómrarnir sem skiluðu sératkvæði fjölluðu ekki um það að beiðnin væri mögulega ekki raunveruleg.
Meirihluti dómsins komst að þeirri niðurstöðu að vefsíðuhönnun teldist „tjáning“ og hún nyti þess vegna verndar tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar. Colorado-ríki væri ekki heimilt að þvinga hana til þess að hanna vefsíðu fyrir brúðkaup samkynhneigðra því að það stangaðist á við trú hennar að aðeins karl og kona gætu gengið í hjónaband.
Frjálslyndu dómararnir hörmuðu að dómurinn hefði rétt af samkynhneigðu fólki.
„Álit dómstólsins er í bókstaflegri merkingu skilaboð sem segja „Samkynja pörum kann að vera meinað um ákveðna þjónustu“,“ skrifaði Sonia Sotomayor, höfundur minnihlutaálitsins.