Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Ég elska hvað tískan er sveigjanleg og persónubundin.
Það sem mér finnst vera algjörlega málið gæti verið púkó fyrir næstu manneskju en mér finnst það svo áhugavert.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Uppáhalds flíkin mín er klárlega Hoys buxurnar frá Samsøe & Samsøe. Þetta eru þægilegustu buxur alheimsins og þau eru til í allskonar litum. Beige og svörtu eru mín go to.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Ég eyddi óhemju miklum tíma í að hafa outfittið mitt útpælt hér áður fyrr en ég reyni að vera mátulega kærulaus um fataval mitt í dag. Ég skima yfir fataskápinn minn og vel það sem er að kalla á mig þann dag.
Lífið er of stutt til að ofhugsa.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Clean og tímalaus.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já algjörlega. Stíllinn minn er mun einfaldri í dag en hann var fyrir nokkrum árum. Ég laðaðist að áberandi mynstrum og sterkum litum á meðan að ég gríp í fleiri jarðliti og klassísk snið í dag.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég elska mest skandinavískan stíl og fylgist grimmt með því á samfélagsmiðlunum TikTok og Pinterest til dæmis.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Við erum öll ólík og með mismunandi smekk en mér finnst alltaf hálf kjánalegt þegar einhver er í merkjavörum frá toppi til táar.
Ef þú átt geggjaða Gucci, Prada, Fendi eða aðra merkjatösku vertu þá í klassískum og ómerktum fötum á móti. Mér finnst það persónulega mun meira chic að hafa fókusinn á einum stað frekar en að vera til dæmis gangandi Gucci auglýsing.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Ég mun alltaf eiga soft spot fyrir appelsínugula Hosbjerg settinu mínu.
Þó ég sé yfirleitt frekar stílhreinn þegar kemur að lituðum fötum elska ég, inn á milli, að grípa í æpandi liti.
Ég fékk svo ótrúlega mörg hrós fyrir þetta sett og fékk aldeilis egóbúst eftir það kvöld.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Ekki klæða þig fyrir aðra! Þegar ég var yngri var ég svo upptekinn á því að pæla hvað öðrum myndi finnast um lúkkið mitt en ég hef lært með árunum að álit annarra á mér kemur mér bara ekkert við. Wear what makes YOU feel good!

Hér má fylgjast með Birki Má á samfélagsmiðlinum Instagram.