Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um lundann í Grímsey en hann er meðal þess sem helst dregur erlenda ferðamenn út í eyjuna. Þar virðist nóg af honum.
„Það sem við upplifun hérna að er búið að gerast í tuttugu ár er að honum bara fjölgar ár frá ári,“ segir Sæmundur Ólason, bjargveiðimaður í Grímsey.

Skýrasta dæmið segir hann að áður hafi lundinn bara verið á austanverðri eynni en núna sé hann einnig kominn á vesturströndina þar sem þorpið er.
„Fyrir 25 árum þá var enginn lundi hér en núna er hann kominn allan hringinn á eyjunni og kominn alveg að hafnarsvæðinu.“
Þá segir hann engin merki sjást um að honum hafi fækkað á austurhlutanum.
„Okkar kenning er sú að þetta sé bara náttúruleg fjölgun.“

Sjálfur sígur Sæmundur í björg á vorin eftir svartfuglseggjum, álku og langvíu, og segir að þeim tegundum hafi ennig fjölgað. Og Grímseyingar háfa enn lunda.
„Ég fullyrði að það er brotabrot af fjölguninni sem að við tökum. Hvað þá að við séum eitthvað að seilast í höfuðstólinn,“ segir Sæmundur.

Kannski hafa Vestmanneyingar verið þekktustu lundaætur landsins. Núna fara þeir út í Grímsey.
„Þeir koma hérna, vinir okkar úr Vestmannaeyjum, sumir hérna í júlí. Koma svona hópar. Og í nokkur ár hafa þeir komið og reddað lundaballinu hérna af því að þeir ná ekki í lunda til að hafa á ballinu,“ segir Sæmundur.
Takmörkuð lundaveiði í fimmtán daga í Vestmannaeyjum í ágústmánuði muni ekki duga þeim.
„Við óskum eftir að þeir komi sem oftast. Og fleiri heldur en hitt. Séu þeir bara alltaf velkomnir,“ segir bjargveiðimaðurinn í Grímsey.