Í tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra segir að lokunin sé framkvæmd til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila.
„Mikil mengun er á svæðinu og þá ekki síst vegna gróðurelda. Lögreglustjóri getur því miður ekki tryggt öryggi þeirra sem inn á svæðið fara við þessar aðstæður. Þá hætta mjög margir sér inn á skilgreint hættusvæði og hundsa fyrirmæli viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningunni.
Að neðan má sjá myndefni frá gosstöðvunum í gærkvöldi.
Hvasst verður í dag og á morgun við gosstöðvarnar og vindátt óhagstæð göngufólki.
Lokun tekur þegar gildi og verður ákvörðun lögreglustjóra endurskoðuð eftir fund viðbragsaðila klukkan 9 laugardaginn 15. júlí.
Björgunarsveitarmaður frá Sandgerði greindi frá því í gær að hafa orðið fyrir nokkru aðkasti frá göngufólki á vakt sinni við gosstöðvarnar í vikunni.