Maðurinn var handtekinn í heimahúsi á Selfossi síðdegis 27. apríl síðastliðinn þar sem kona á þrítugsaldri fannst látin og var daginn eftir úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn, segir lögreglu hafa lagt fram kröfu um áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir manninum í morgun.
Í lögum kemur fram að ekki sé heimilt að úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema að mál hafi verið höfðað gegn honum nema brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess. „Við erum því miður ekki komin á þann stað að geta gefið út ákæru enn þá en við munum óska eftir gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Það er enn þá það mikið af gögnum sem eru ekki enn komin til okkar þannig það er okkar eini kostur,“ segir Sveinn Kristján.
Beðið sé eftir loka krufningarskýrslu ásamt töluverðum tæknigögnum, símagögnum og öðru slíku. Vonir standi til um að niðurstaða héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald liggi fyrir síðar í dag.