Skoðun

Myndir þú henda gulli í ruslið?

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson skrifar

Þessari spurningu svara líklega allir á sama veg. Nei, þú myndir ekki henda gulli í ruslið. Þrátt fyrir það henda Íslendingar einu til tveimur kílóum af spilliefnum og raftækjum í blandaðan heimilisúrgang á hverju ári – úrgangi sem er ríkur af verðmætum hráefnum, meðal annars gulli, kopar og silfri. Óafvitandi erum við nú þegar að henda gulli í ruslið.

Öll raftæki eiga það sameiginlegt að innihalda verðmæt efni sem eru af skornum skammti. Þessi efni eru þýðingarmikil fyrir nýja tækni, innleiðingu hringrásarhagkerfis og framleiðslu á nýjum raftækjum. Án þessara efna væru engir snjallsímar, engar vindmyllur og engir rafbílar.

Vegna þess að raftæki innihalda verðmæt hráefni er sérstaklega mikilvægt að þau rati í réttan endurvinnslufarveg þegar líftíma þeirra lýkur. Raftæki eiga aldrei að fara í blandað sorp og raftæki sem safna ryki ofan í skúffum ættu líklega betur heima í endurvinnslu. Það er auðvelt að koma raftækjum í endurvinnslu. Endurvinnslustöðvar taka á móti raftækjum en sömuleiðis taka stærri raftækjaverslanir á móti litlum raftækjum eftir að líftíma þeirra lýkur.

Raftæki eru víða í kringum okkur, bæði auðþekkjanleg tæki eins og ísskápur, þvottavél og sjónvarp en einnig tæki sem við hugsum ekki endilega um sem raftæki en eru það samt, eins og vasareiknir, hleðslusnúrur og skór sem blikka.

Líttu í kringum þig og teldu raftækin sem þú sérð. Án þess að hafa vitað af því átt þú líklega bæði gull og önnur verðmæt efni sem hluta af raftækjunum þínum. Einn daginn mun líftíma þeirra ljúka og þá verður hægt að endurvinna verðmætu efnin úr tækinu. Kannski verður silfrið hluti af þínum framtíðarsnjallsíma. Kannski verður gullið í því notað í trúlofunarhring einhvers sem þú þekkir. Með því að endurvinna gömul raftæki býrðu þeim til nýja framtíð.

Er tækið mitt raftæki? Hér eru nokkrar vísbendingar sem benda til þess að um raftæki sé að ræða:

- hægt er að stinga tækinu í samband

- tækið er með rafmagnsvíra

- tækið blikkar eða framleiðir ljós

- tækið er með hátalara

- tækið er með hitastillingu

- tækið notar fjarlægjanlegar eða ófjarlægjanlegar rafhlöður

Höfundur er sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×