
Ekkert lát er á skógareldum víðs vegar um suður Evrópu og norður Afríku. Undanfarna daga hafa eldar blossað upp bæði í Alsír og Túnis og dreifa sér hratt vegna hvassviðris. Í Alsír hafa að minnsta kosti þrjátíu og fjórir farist í skógareldunum. Þeirra á meðal sextán manns úr þremur fjölskyldum sem reyndu að flýja á bílum niður að strönd. Í þeirra hópi voru bæði fullorðnir og börn.

Þá hafa tugir manna, aðallega eldra fólk, verið flutt frá bæ í nágrenni Lissabon höfuðborg Portúgals. Þar kviknuðu skógareldar óvænt í gær. Vindhviður ná allt að 60 kílómetrum á klukkustund og hafa auðveldað eldunum að fara hratt yfir. Eldar loga einnig í Tyrklandi, á Sikiley á Ítalíu og í Króatíu.

Enn er neyðarástand víða í Grikklandi þar sem eldar loga víða. Tveir flugmenn á vatnsflugvél fórust í gær þegar flugvélin hrapaði við slökkvistörf á Rhodes.
Margir Grikkir á Ródos, Korfú og fleiri eyjum hafa misst aleiguna og lífsviðurværi sitt þar sem gisti- og veitingastaðir hafa orðið eldunum að bráð. Vasilis Sofitsis sem rekur fyrirtæki sem sér um rekstur og viðhald eigna segir grísku eyjarnar hafa orðið fyrir stórslysi.
„Þetta er stórslys. Vegna þess að aðaltekjur eyjanna koma frá ferðaþjónustunni. Ef afpantanir fara síðan að hrannast upp vegna þess að fólk óttast að koma hingað verður þetta alger hörmung fyrir okkur, fyrir allar grísku eyjarnar,“ segir Sofitsis.