Dorsainvil var að vinna í heilsugæslustöð á vegum góðgerðasamtakanna El Roi Haiti en hún er gift stofnanda þeirra sem er frá Haítí. Ekki liggur fyrir hve gömul dóttir þeirra er.
AP fréttaveitan hefur eftir fólki á svæðinu að mennirnir hafi beðið um milljón dali í lausnarfé (um 132 milljónir króna), sem sé í takt við fyrr hegðun glæpamanna á Haítí að undanförnu. Talið er að hundruð mannrána hafi verið framin á Haítí á þessu ári.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki viljað staðfesta að krafa um lausnarfé hafi borist og hefur neitað að svara spurningum blaðamanna. Sama dag og mæðgunum var rænt höfðu yfirvöld Í Bandaríkjunum lagt til að allir Bandaríkjamenn færu frá Haítí en þeir eru vinsæl skotmörk mannræningja.
Glæpagengi hömlulaus
Óreiða hefur lengi einkennt Haítí en hún hefur náð nýjum hæðum frá því Jovenelle Moise, forseti landsins, var myrtur á heimili sínu árið 2021.
Glæpagengi Haítí eru nánast hömlulaus og skipta Port-au-Prince og stórum hlutum landsins sín á milli. Í fyrra var talið að um það bil níu þúsund lögregluþjónar hafi starfað á Haítí, sem er hlutfallslega mjög lítið miðað við að íbúar landsins eru rúmlega ellefu milljónir.
Sjá einnig: Mótmæltu eftir grimmilegt morð á sex lögregluþjónum
Glæpagengi Haítí er bæði mun fjölmennari og betur búin en lögregla landsins. Stjórnmálamenn hafa í gegnum árin dælt peningum í mismunandi gengi og beitt þeim gegn pólitískum andstæðingum sínum.
Læknar flýja undan ofbeldinu
Íbúar á Haítí eru langþreyttir á ástandinu og segjast vilja fá að lifa í friði. Um tvö hundruð manns komu saman við heilsugæslustöðina þar sem Dorsainvil var rænt og kröfðust þess að henni yrði sleppt úr haldi. Mótmælendur sögðu að hjálparstarf El Roi Haiti hefði reynst þeim mjög vel.
Fólkið óttast að heilsugæslustöðin verði ekki opnuð aftur.
Óöldin á Haítí hefur leitt til þess að hjálparsamtök eins og El Roi Haiti eru eini staðurinn sem margir íbúar geta leitað til þegar þau vantar læknisaðstoð. Læknar án landamæra tilkynntu til að mynda í júní að þeir ætluðu að hætta starfsemi í landinu eftir að um tuttugu vopnaðir menn ruddust inn á skurðstofu sem samtökin ráku og rændu manni af skurðborðinu.