Að sögn Icelandair er búið að útvega öllum gistingu á hóteli í nótt og nýtt flug áætlað á morgun. Tæknibilunin hafi gert það að verkum að flugfélagið hafi neyðst til að fresta fluginu vegna reglna um hvíldartíma áhafna.
„Við erum að vinna úr þessum aðstæðum í samstarfi við þjónustuaðila okkar á flugvellinum á Krít en það hefur tekið tíma. Við munum upplýsa farþega um leið og nýtt flug verður staðfest,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Von sé á upplýsingum um nýjan brottfarartíma snemma í fyrramálið.
Bubbi Morthens kvartar undan slælegri upplýsingagjöf flugfélagsins í færslu á Facebook-síðu sinni sem hann birti fyrr í kvöld. Hann segir að frestun flugsins muni verða honum afdrifarík þar sem hann eigi bókaða aðra flugferð innanlands á morgun og hafi hafi ætlað í veiðitúr norður í Aðaldal.
„Alvöru tjón í uppsiglingu,“ segir hann á Facebook-síðu sinni.