John er Íri sem búið hefur á Íslandi í fimmtán ár og þjálfað kvennalið Aftureldingar, Völsungs og svo Víkings frá árinu 2019.
Hann er á góðri leið með að stýra Víkingum upp úr Lengjudeildinni og í Bestu deildina, og á sama tíma er liðið búið að slá út FH og Selfoss í Mjólkurbikarnum til að komast í sjálfan úrslitaleikinn.
„Við erum með frábæra gulrót til að elta í því sem Arnar [Gunnlaugsson] og karlalið Víkings hafa verið að gera. Þeir hafa verið ótrúlegir þessi 4-5 ár síðan ég kom hingað. Við höfum því litið til þeirra og sagt að við viljum komast á sama stað með kvennaliðið. Við höfum nálgast lokatakmarkið um að komast í Bestu deildina og þessi úrslitaleikur er önnur varða á þeirri leið. Við lítum bara á þetta sem skref á þessari vegferð,“ sagði John.
„Kannski mjólkurglas“
Hann var laufléttur í bragði þegar hann ræddi við fjölmiðla á Laugardalsvelli í gær og glotti aðspurður hvernig hann myndi eiginlega fagna bikarmeistaratitli, ef svo færi að „Davíð“ legði „Golíat“ að velli á morgun.
„Mamma mín og bróðir eru að koma í heimsókn svo ég þarf að drífa mig að þrífa húsið því ef það er drasl þegar mamma kemur þá drepur hún mig. En við mætum svo Aftureldingu 17. ágúst svo við getum nú ekki fagnað neitt of mikið. Kannski mjólkurglas. Við sjáum til. Við gerum alla vega okkar besta til að vinna leikinn,“ sagði John.
Mikilvæg skilaboð frá meistaraflokki kvenna fyrir föstudaginn!
— Víkingur (@vikingurfc) August 9, 2023
https://t.co/DpZtlweqxW pic.twitter.com/JvCWnD5crz
Hann fagnar því að hafa haft nóg að gera með Víkingsliðinu í Lengjudeildinni undanfarið, til að dreifa huganum frá bikarævintýrinu mikla eftir að hafa unnið þar tvö lið úr Bestu deildinni.
Verið hljóðari síðustu vikur
„Ég hef reynt að vera aðeins hljóðari síðustu vikur því við hefðum alveg getað misst okkur aðeins eftir sigurinn gegn FH [í undanúrslitum]. Það var mitt hlutverk að róa leikmenn og starfsmenn niður, og byggja okkur svo aftur upp fyrir föstudaginn. Við þurfum að vera upp á okkar allra besta í þessum leik, og þegar við erum upp á okkar besta getum við veitt öllum keppni, þar á meðal Breiðabliki. Vonandi verðum við tilbúin og á fullri ferð,“ sagði John.

Víkingar sóttu sigur í Fjarðabyggðarhöllina í síðustu viku og unnu svo 4-0 stórsigur gegn Augnabliki á Kópavogsvelli á mánudaginn, þar sem verðandi mótherjar þeirra í bikarúrslitaleiknum fylgdust með.
„Í síðasta leik fyrir úrslitaleik þá eru leikmenn alltaf stressaðir, en svo stöndum við okkur svona! Þetta veldur mér hausverk því það voru allar frábærar í þessum leik. Núna þurfum við að velja liðið en það verður í góðu lagi með okkur,“ sagði John.
Sama fólkið, æfingar og matur
John segir að varðandi undirbúning fyrir leikinn á morgun verði í engu brugðið út af vananum.
„Ég hef farið í nokkra úrslitaleiki sem þjálfari og sem leikmaður. Stöðugleiki er besta leiðin til að takast á við þá. Sama fólkið, sömu æfingarnar, sami undirbúningur, sami matur… Þetta er bara stærri leikvangur. Þessir leikmenn eru búnir að vera svo góðir síðustu þrjú ár að þetta mun ekki gera þá órólega en við verðum að halda okkur í góðu jafnvægi. Við erum tilbúin og verðum tilbúin þegar leikurinn hefst.“
Leikur Breiðabliks og Víkings hefst klukkan 19 á Laugardalsvelli annað kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.