Þeir sem voru unglingar á þessum tíma muna eflaust margir eftir að hafa endað rúntinn á planinu, þar sem strákarnir reyndu við stelpurnar og öfugt og ófá ástarsambönd urðu til. Margir fóru á sitt fyrsta fyllerí á planinu og sötruðu landa, enda var bjórbann ennþá í gildi á Íslandi.
En eldri kynslóðinni var þó ekki beinlínis skemmt, enda voru ólæti, áflog, rúðubrot og lögregluátök nánast fastur liður á Hallærisplaninu um helgar. Miklar umræður áttu sér stað um planið á sínum tíma og var töluvert fjallað um ástandið í blöðum þar sem samkomurnar á planinu voru meðal annars kallaðar „forgarður vítis“.
„Sleppið Hallærisplaninu í kvöld og mætum í Tónabæ,“ stóð í auglýsingu sem Tónabær birti í Morgunblaðinu í október 1976, í þeim tilgangi að lokka ungmennin burt frá ólátunum í bænum og inn í félagsmiðstöðvarnar.
Eftir því sem leið á níunda áratuginn minnkaði aðdráttarafl plansins og unglingarnir fóru að sækja meira í félagsmiðstöðvar, upp á Hlemm, í leiktækjasali og á hina og þessa unglingaskemmtistaði sem höfðu opnað. Samkomurnar á planinu heyra því liðinni tíð en lifa eflaust góðu lífi í minningum margra Íslendinga.
Meðfylgjandi myndir eru í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur.









Um Ljósmyndasafnið
Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíðin og nútíminn mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi. Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru nú varðveittar um 6,5 milljónir ljósmynda af ýmsum stærðum og gerðum. Elstu myndirnar eru frá því um 1860 og þær yngstu frá 2020. Ljósmyndasafn Reykjavíkur setur upp á annan tug sýninga ár hvert. Markmiðið er að kynna íslenska ljósmyndara og koma á framfæri, sýna verk úr safneign sem og að sýna verk erlendra ljósmyndara.