Matthías er hvað þekktastur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar Hatara og Brynhildur Karls er söngkona hljómsveitarinnar Kvikindi, sem hlaut verðlaun fyrir plötu ársins á Hlustendaverðlaununum í ár.
Athöfnin fór fram í Borgarfirði í sól og blíðu og sagði Matthías í samtali við Vísi að „þessi dásamlega veisla hefði ekki verið framkvæmanleg án mikilvægs framlags Kvenfélagsins 19. júní á Hvanneyri. Við kunnum Kvenfélagskonum bestu þakkir.“

Brynhildur skrifar á Instagram-síðu sinni að Borgarfjörðurinn og fólkið þar hafi eignast sess í hjörtum þeirra hjóna eftir þennan eftirminnilega dag.
„Við Matthías Haraldsson gengum í heilagt hjónaband í gær. Dagurinn var sprengfullur af gleði, tónlist, gríni, tárum, leikjum og ÁST. Við eigum svo ótrúlegt fólk í kringum okkur sem öll gerðu þennan dag svo sérstakan fyrir okkur og við verðum lengi að jafna okkur,“ skrifar Brynhildur einnig.
Brynhildur birti skemmtilega myndaseríu eftir Rakel Rún þar sem faðir Brynhildar, Karl Ágúst leikari, stendur með hjónunum við altarið og syngur. Brynhildur klæddist einstökum brúðarkjól sem er hannaður af hönnuðinum Berglindi Ósk Hlynsdóttur sem kallar sig boskboskbosk á Instagram. Kjóllinn var gerður úr leifum af garni og ull sem kom frá bóndabæ fjölskyldunnar og féll einstaklega vel við íslensku náttúruna sem umkringdi nýgiftu hjónin.
„Ég get ekki sagt nógu margt fallegt um þá konu. Við hönnuðum kjólinn og hugmyndina saman en hún gerði hann svo miklu fallegri en mig hefði getað grunað. Einnig spreyjaði hún kúrekastígvélinn sem ég keypti notuð og skreytti aðra skó sem ég endaði á að nota ekki en voru geggjaðir! Svo lánaði hún líka mömmu minni og tengdamóður peysur og vinkonum mínum og systur veski fyrir brúðkaupið,“ segir Brynhildur í samtali við blaðamann.
Veisluhöldin fóru einnig fram í Borgarfirði þar sem tónlistarparið steig að sjálfsögðu á svið og flutti meðal annars Dirty Dancing smellinn (I’ve Had) The Time Of My Life sem Bill Medley og Jennifer Warnes gerðu ódauðlegan á sínum tíma.
Hjónin trúlofuðu sig í Skylagoon haustið 2021 og eignuðust dóttur í fyrrasumar.