Greint er frá þessu í tilkynningu þar sem segir að með kaupunum ætli Skeljungur að bæta vöruúrval og þjónustuframboð við bændur. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsemi Búvís eða þjónustu við viðskiptavini.
„Búvís var stofnað í janúar 2006 af bræðrunum Einari Guðmundssyni og Gunnari Guðmundarsyni sem hafa átt og rekið félagið frá upphafi. Félagið sérhæfir sig í sölu og þjónustu búvéla og rekstaravara til bænda svo sem áburði, rúlluplasti og rúlluneti. Vaxandi þáttur í rekstrinum er einnig sala á vörum til annarra hópa.
Fyrirtækið er staðsett á Akureyri en sölumenn og umboðsaðilar eru dreifðir um landið, mest bændur,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Einari Guðmundssyni, framkvæmdastjóri Búvís, að eigendur hafi verið komnir að vissum tímamótum með fyrirtækið og fagni því að sjá það í góðum höndum. J
Fyrirtækjaráðgjöf Íslenskra verðbréfa hafði milligöngu um kaupin og stýrði söluferlinu en kaupin eru háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.