Fyrrverandi milljarðamæringurinn er enn ákærður fyrir stórfelld fjársvik í uppfærðu ákærunni sem var lögð fram fyrir alríkisdómstól í New York í dag. Saksóknarar saka hann um að stela milljörðum dollara af innistæðum viðskiptavina FTX og veita þeim til vogunarsjóðs sem hann átti og hafði tapað miklu.
Hann er ekki lengur ákærður fyrir að brjóta lög um framlög til stjórnmálaflokka þar sem yfirvöld á Bahamaeyjum sem framseldu hann í desember mótmæltu því. Saksóknarar segja að þeir ætli engu að síður sýna fram á að hann hafi notað um hundrað milljónir dollara af fénu sem hann skaut undan til þess að kaupa sér áhrif hjá stjórnmálamönnum.
Fær hvorki lyf né mat við hæfi
Dómarinn í málinu úrskurðaði að Bankman-Fried skyldi vistaður í fangelsi fram að réttarhöldunum í október fyrir tilraunir til þess að hafa áhrif á vitni á dögunum.
Lögmaður hans sagði fyrir dómi í dag að hann lifði aðeins á vatni og brauði vegna þess að hann vildi halda sig við veganfæði. Fangelsið hefði ekki orðið við óskum hans um það, að því er segir í frétt Reuters.
Þá hefðu fangelsisyfirvöld ekki útvegað honum ofvirknilyfið Adderall þrátt fyrir að dómstóll hefði skipað fyrir um það. Hann ætti enn fremur lítið eftir af þunglyndislyfi sem hann tekur. Allt þetta torveldaði Bankman-Fried í að taka þátt í undirbúningi málsvarnar sinnar.
Fangelsið í Brooklyn í New York þar sem Bankman-Fried er haldið er alræmt fyrir lélegan aðbúnað fanga. Skipaðir verjendur hafa lýst aðstæðum þar sem „ómannúðlegum“.
FTX var þriðja stærsta rafmyntakauphöll heims áður en hún varð gjaldþrota með hvelli síðasta haust. Viðskiptavinir gerðu hliðstæðu bankaáhlaups á fyrirtækið eftir fréttir af vafasömum tengslum kauphallarinnar við Alameda Research, vogunarsjóð Bankman-Fried.
Eftir gjaldþrotið var Bankman-Fried ákærður fyrir að flytja milljarða dollara út úr FTX til að halda Alameda Research gangandi. Fall Bankman-Fried var hátt en hann hafði keypt sér umtalsverð áhrif og verið álitinn nokkurs konar undrabarn eða gúrú í rafmyntaheiminum.