„Það sem þessi gleraugu gera er að þau í rauninni taka yfir sjónsviðið þitt þegar þú ferð inn í þau og það sem þú getur upplifað hér er í rauninni hvað sem er og þú getur hegðað þér hvernig sem er,“ segir Gunnar Valgarðsson, einn stofnenda Aldin Dynamics um PlayStation VR sýndarveruleikagleraugun.
Ofurkraftar draumur í barnæsku
Hrafn Þórisson, annar stofnandi fyrirtækisins, segir Waltz of the Wizard snúast um að gera hverjum sem er kleift að upplifa hvernig það er að vera með galdramátt. Í leiknum er meðal annars hægt að ræða við persónur en um er að ræða tækni sem er sérhönnuð af Íslendingunum í Aldin.
Þeir Hrafn og Gunnar segja kosti sýndarveruleika þann að hann höfði til spilara á öllum aldurshópi. Stefnt er að því að gefa leikinn út í haust og verður endanleg dagsetning tilkynnt síðar.
„Kosturinn við að hanna hluti eins og veruleika er að það kann hver sem er að vera í veruleika,“ segir Hrafn. Hann segir alla hafa átt sér draum í barnæsku um að hafa ofurkrafta og það geti svo gott sem raungerst í leiknum.
„Þú verður að vera í þessum heimi“
Aldin er eitt af fremstu fyrirtækjum í heimi þegar það kemur að því að nýta og þróa tæknina að baki sýndarveruleikatölvuleikja. Fyrirtækið hefur unnið náið með bandaríska hugbúnaðarrisanum Meta, sem framleiðir meðal annars Oculus Rift sýndarveruleikagleraugun.
„Lykillinn er sá, að við erum að reyna að gera eitthvað með þessum miðli sem er ekki hægt með öðrum. Þetta virkar ekki á skjá þessi upplifun sem þú færð úr þessu. Þú verður að vera í þessum heimi til að fá þessa týpu af upplifun.“