„Við sátum þarna í innri salnum að bíða eftir matnum okkar. Svo byrjaði að koma brunaboð úr reykskynjaranum og allt pípti og pípti. Við skildum ekkert hvaða læti þetta voru og töluðum við þann sem var að gera pizzurnar fyrir aftan okkur og spurði hvort þetta væri eðlilegt hljóð,“ segir Kristín Ingólfsdóttir sem var inni á staðnum Pure Deli í fimm manna hópi.
„Svo kom bara eins og það væri brestur og við hugsuðum að vatnskerfið væri farið í gang. Þá stóðum við upp og ætluðum að drífa okkur út. Þá sprakk bara veggurinn. Við hlupum út með reykinn fyrir aftan okkur.“
Fréttamaður hitti Kristínu fyrir við staðinn, þar sem hún var komin til að skila hnífapörum sem hún hafði í óðagotinu kippt með sér.
„Það kom bara svartur reykur. Ég sá ekki nákvæmlega hvað gerðist en við sáum þegar það byrjaði að skjótast af veggnum. Maður vissi ekkert hvað var í gangi. Íslendingar eru svo rólegir, þeir sitja alltaf bara kyrrir þótt það sé allt í gangi.“
Hún segir þá að fleiri viðskiptavinir hafi verið í innri salnum.
„Við sátum sex við borðið, í innri salnum, og svo voru tveir aðrir þar. En hitt fólkið var allt frammi. Ég tók ekki eftir þessum tveimur en þeir hlupu bara út á sama tíma og við.“
Fólk hafi stokkið til og fært bíla sína til að greiða leið viðbragðsaðila að staðnum.
„En ótrúlegt samt hvað allir voru rólegir. Einhverjir ætluðu að hlaupa aftur inn og ná í símana sína, en það var auðvitað ekkert í boði,“ segir Kristín.