Solberg sagði í morgun að rannsókn hafi leitt í ljós að hún hafi reynst vera vanhæf í fjölda mála sem hún hafi komið að sem forsætisráðherra vegna hlutabréfabrasks eiginmannsins sem hún hafi ekki vitað af.
Í ljós hafi komið að hann hafi hagnast um 1,8 milljónir norskra króna, um 23 milljónir króna, á þeim tíma sem hún var forsætisráðherra, en alls hafi hlutabréfafærslur Finnes verið 3.650 talsins.
„Þau hafa nú fengið aðgang að hlutabréfaviðskiptum Sindre þau ár sem ég var forsætisráherra. Það geta allir séð að þau voru umfangsmikil. Sindre hefur átt í mun meiri viðskiptum en hann greindi mér frá eða forsætisráðuneytinu,“ sagði Solberg á fréttamannafundinum í morgun.
Solberg, sem var forsætisráðherra Noregs á árunum 2013 til 2021, segir ljóst að eiginmaðurinn hafi ekki verið fullkomlega heiðarlegur gagnvart sér. „Trúnaðarbrot eru alltaf erfið, sérstaklega innan fjölskyldu og hjónabands. Það særir mig að þurfa að vera jafnhörð í garð Sindre og ég er í dag,“ sagði Solberg á meðan hún reyndi að halda aftur af tárunum.
Solberg segir ljóst að Sindre hafi staðið í hlutabréfaviðskiptunum þó að honum hafi verið fullkunnugt um að hann ætti ekki að gera það og af hverju hann ætti ekki að gera það.