Skagamenn þurftu aðeins jafntefli til að tryggja sér efsta sæti deildarinnar og þar með farseðilinn í Bestu-deild karla. Liðið gerði gott betur en það og vann öruggan 4-1 sigur gegn Gróttu.
Eina liðið sem átti möguleika á að stela toppsætinu af ÍA var Afturelding, en liðið mætti Þrótti sem var enn í harðri fallbaráttu.
Þróttarar unnu lífsnauðsynlegan 2-1 sigur og tryggðu sér áframhaldandi veru í Lengjudeildinni og á sama tíma gerði liðið út um vonir Aftureldingar um beint sæti í efstu deild. Afturelding er því á leið í umspil ásamt Fjölni, Vestra og Leikni.
Þá eru Selfyssingar fallnir eftir 2-1 tap á heimavelli gegn Vestra. Gestirnir skoruðu tvö mörk snemma leiks áður en Selfyssingar minnkuðu muninn í síðari hálfleik, en niðurstaðan varð 2-1 sigur Vestra og Selfyssingar fylgja því nágrönnum sínum í Ægi niður í 2. deildina.