Það var laugardaginn 6. nóvember 2021, sem varðskipið Freyja lagðist að bryggju á Siglufirði eftir fimm daga siglingu frá Rotterdam og því eru að verða tvö ár liðin frá þessum sögulega viðburði. Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sem er með skrifstofu sína á Siglufirði segir frábært að hafa Freyju á staðnum og að varðskipið veki alltaf mikla athygli ferðamanna í sinni heimahöfn á Siglufirði.
„Og við vorum ákaflega glöð þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna ákvað að Freyja skildi hafa heimahöfn hér á Siglufirði og höfum tekið því fagnandi og búið til góða aðstöðu fyrir hana hérna. Og það er stefnt að því að áhöfnin verði að mestu héðan að norðan þannig að það gengur ágætlega að uppfylla það en það er lögbundið að það skuli vera átján manna áhöfn á varðskipum svo við viljum hafa eitt svona Norðanvarðskip og annað Sunnanvarðskip til að gæta öryggi landsins og við höfum átt sérstaklega gott samstarf við Landhelgisgæsluna,“ segir Sigríður.

Sigríður segir að heimahöfn skipsins á Siglufirði hafi mjög mikla þýðingu.
„Já, þetta hefur bara mjög mikið að segja, bæði út frá öryggissjónarmiði sem og líka að bjargir landsins og öryggissjónarmið sé ekki bara í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu.“