Ólöf Ýrr Atladóttir, fyrrverandi ferðamálastjóri, sem er með ferðaskrifstofuna „Sóti Summits“ á Siglufirði sá um skipulagningu ráðstefnunnar og segir Siglufjörð frábærar ráðstefnubæ.
„Já, Siglufjörður er frábær vettvangur fyrir ráðstefnur af þessari stærðargráðu. Hér er öll umgjörð til staðar, salir, veitingar og gisting, en ekki síður skiptir máli að hér er hægt að brjóta ráðstefnuformið ögn upp. Hér fær fólk tækifæri til að vera aðeins úti og njóta afþreyingar sem hefur beina skírskotun í líf og störf heimamanna. Ráðstefnugestir njóta meiri samvista og kynnast betur í umhverfi sem þessu og fá jafnframt sterka tilfinningu fyrir þeim stað sem er heimsóttur. Það skilar sér í frjórri umræðu meðal ráðstefnugesta og getur byggt undir framtíðar samstarf og vinnutengsl,“ segir Ólöf Ýrr.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra mætti meðal annars á ráðstefnuna til að veita verðlaun fyrir bestu veggspjöldin en þau fóru til þriggja ungra vísindamanna. „Forsvarsfólki ráðstefnunnar þótti mikill heiður að því að Guðlaugur Þór skyldi koma og veita verðlaunin. Það skiptir máli fyrir ungt vísindafólk að finna að tekið sé eftir þeirra framlagi og það metið,“ segir Ólöf Ýrr.

Kítósan er lífvirkt náttúrulegt efni
Fyrir þá sem ekki vita þá er Kítósan lífvirkt náttúrulegt efni, sem leysa mun mörg kemísk efni af hólmi, og hafa yfirgripsmiklar rannsóknir átt sér stað um allan heim á þessar fjölþættu fjölliðu. Kítósan brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og hefur reynst hafa margvíslega og margbreytilega nýtingarmöguleika, m.a. innan læknisfræði, efnafræði, landbúnaðar, í sáravörum, snyrtivörum og fæðubótarefnum, sem og í hreinsun vatns. Sjálfbær framleiðsla og þróun á nýtingarmöguleikum efnisins styður við Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna m.a. vegna jákvæðra umhverfisáhrifa.
