Hornbrekka er hjúkrunarheimili í Fjallabyggð þar sem fer mjög vel um heimilismenn, sem er um tuttugu. Hópurinn er til dæmis duglegur að koma saman og spila boccia með Sylvíu iðjuþjálfara heimilisins en toppurinn er þó nýja gróðurhúsið fyrir utan heimilið.
„Þetta eru jarðarber, gulrætur og káltegundir, hvítkál, blómkál og allskonar. Það er bara gaman að þetta skuli vera komið hér, þetta er bara reglulega gaman,” segir Sigurður Guðmundsson Ólafsfirðingur og íbúi á Hornbrekku.
Sigurður er mjög ánægður á Hornbrekku en hann er með elstu íbúum heimilisins, 92 ára
„Já, þetta er reglulega gott heimili, alveg sérlega gott. Það er stjanað við okkur og við höfum það reglulega gott hérna,” bætir Sigurður við.
Ertu skotin í konunum?
„Ég hef nú alltaf verið svolítið veikur fyrir þeim,” segir hann og skellihlær.

„Sérðu hérna kálið hvað þetta er flott. Maður má víst borða þetta allt saman,” segir Halla Gísladóttir Suðurnesjamaður og íbúi á Hornbrekku þegar hún sýnir fréttamanni kálið í gróðurhúsinu.
Ertu ekki ánægð á þessu heimili?
„Jú, það er voða, voða gott að vera hérna, mjög svo gott.”

„Ég er hrikalega ánægð með þetta. Það er mikill munur að fá svona gróðurhús. Líka bara að koma inn í húsið og finna lyktina, fá aðeins mold á hendina, þetta er algjörlega yndislegt,” segir Sylvía Halldórsdóttir iðjuþjálfi á Hornbrekku.
