Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Þar segir að rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) hafi verið erfiður undanfarin ár, einkum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru sem olli samdrætti í tónleikahaldi hljómsveitarinnar.
Áður hafði Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, tekið upp hanskann fyrir hljómsveitina í samtali við fréttastofu. Hann sagði í dag að hræðilegt yrði ef hljómsveitin færi í verkfall líkt og stefndi í. Hann sagði það taka áratugi að byggja upp menningarstofnanir en stuttan tíma að hola þær að innan.
Eins og fram hefur komið vísaði Starfsmannafélag SÍ (SMFSÍ) kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara í júní síðastliðnum. Ríkissáttasemjari og samninganefndin lögðu ríka áherslu á aðkomu ráðuneytis menningarmála til lausnar deilunni.
Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands samþykktu í byrjun september að boða til verkfalls. Fyrsta vinnustöðvunin var fyrirhuguð á morgun, 28. september, en áhersla var lögð á að leita allra leiða til að ekki kæmi til verkfalls.
Segir í tilkynningunni að innan vébanda SÍ hafi mikil vinna átt sér stað undanfarið til að bregðast við fjárhagsstöðu hljómsveitarinnar. Engu að síður var ljóst að ef til vinnustöðvunar kæmi, gæti hljómsveitin ekki staðið við skuldbindingar sínar og grafið væri undan möguleikum hljómsveitarinnar til að afla sértekna.
Með hliðsjón af ofangreindu lagði menningar- og viðskiptaráðuneytið til að Sinfóníuhljómsveit Íslands fengi viðbótarfjárveitingar sem nema 15 m.kr. árið 2023 og 45 m.kr. árið 2024 til að standa undir kostnaði við launahækkanir til að tryggja rekstrargrundvöll sveitarinnar og efla vinnustaðamenningu.
„Sinfóníuhljómsveit Íslands gegnir lykilhlutverki í íslensku tónlistarlífi. Það er því afar ánægjulegt að búið sé að semja. Verkfall hefði getað haft verulega neikvæð áhrif á menningarlífið í landinu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.