Þáttaröðin verður sýnd á Stöð 2 og Stöð 2+ í vetur og eru þeir framleiddir af Glassriver. Stefnt er að því að sýna þættina víðar um heim undir heitinu As long as we live.
„Beta, eitt sinn efnileg tónlistarkona, finnur sig í ónýtu hjónabandi, ekki verandi sú móðir sem hún vill vera. Þegar ungur maður flytur inn á heimilið til að hjálpa með barnið og fer að leggja til „daður-verkefni“ fyrir hjónin, er Beta þvinguð til að taka áhættur og stíga aftur inn í lífið,“ segir í lýsingu á þáttunum.
Það er óhætt að segja að landslið kvikmyndagerðarmanna komi að þáttunum en kvikmyndatakan er í höndum Árna Filippussonar og Ásgríms Guðbjartssonar, klipping þáttanna er í höndum Valdísar Óskarsdóttur, Guðlaugs Andra Eyþórssonar og Sigurðar Eyþórssonar og tónlistin er í höndum Kjartans Hólm, svo fáeinir séu nefndir. Leikstjóri þáttanna er Katrín Björgvinsdóttir.
Með aðalhlutverk fara þau Aníta Briem, Martin Wallström, Mikael Kaaber og Katla Margrét Þorgeirsdóttir.
Í samtali við Vísi í fyrra sagði Aníta að þættirnir séu ástarsaga en þó ekki hin klassíska sem við heyrum oftast um. Þættirnir fjalli um nándina og alls konar ástar- og sálarflækjur.
„Oft í lífi fólks getur maður lært mikið af sögum en stundum bara að vita að maður er ekki einn í heiminum, það getur veri ótrúlega dýrmætt og skipt miklum sköpum. Svo þetta er svona óður minn til ástarinnar og lífsneistans sem getur verið alls konar á litinn.“
Þann 8. október verða allir þættirnir aðgengilegir fyrir áskrifendur Stöðvar 2 inn á Stöð 2+. Áskrifendur Stöðvar 2+ geta nálgast einn þátt á viku en þættirnir eru einnig sýndir á Stöð 2 á sunnudagskvöldum.
Fréttin hefur verið uppfærð