Ríkisstjórn Biden samþykkti fyrir nokkru að veita sex milljörðum bandaríkjadala til viðbótar í hernaðaraðstoð til Úkraínu en fjárútlátin voru tekin út úr fjárlagapakka sem var samþykktur vestanhafs um helgina til að forða lokun opinberra stofnana og þjónustu.
Fjárlagafrumvarpinu hafði fram að því verið haldið í heljargreipum af hóp þingmanna á hægri væng Repúblikanaflokksins og komst aðeins í gegn með stuðningi Demókrata.
Biden ítrekaði í gær að þetta breytti því ekki að Bandaríkin myndu áfram standa þétt við bak Úkraínu og sagði hann raunar að það mætti ekki undir neinum kringumstæðum gerast að hnökrar yrðu á stuðningnum.
„Ég fullvissa Úkraínu um að við náum þangað, að við komum þessu í gegn,“ sagði hann um fjárstuðninginn. „Ég vill fullvissa bandmenn Bandaríkjanna um að þeir geta reitt sig á okkar stuðning; við munum ekki hverfa á braut.“
While the majority of Congress has been steadfast in their support for Ukraine, the bipartisan bill has no funding to continue it.
— President Biden (@POTUS) October 1, 2023
We can't allow this to be interrupted.
I expect the Speaker to keep his word and secure the passage of support for Ukraine at this critical moment.
Háttsettir öldungadeildarþingmenn bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins gáfu einnig út yfirlýsingar þess efnis að þeir myndu tryggja að fjárstuðningur Bandaríkjanna við Úkraínu myndi halda áfram.
Þingmenn innan fyrrnefnds „uppreisnarhóps“ innan Repúblikanaflokksins voru hins vegar á öðru máli.
„Úkraína er ekki 51. ríkið,“ sagði Marjorie Taylor-Green, þingkona Georgíu. Þá sagði Matt Gaetz, þingmaður Flórída, að þau fjárútlát sem hefðu þegar verið samþykkt væru einhvers staðar á bilinu „meira en nóg og alltof mikið“.
Gaetz hefur heitið því að koma Kevin McCarthy, forseta fulltrúadeildar þingsins, frá eftir að McCarthy komst að málamiðlun við Demókrata til að koma fjárlagafrumvarpinu í gegn um helgina.