Þingmaðurinn ræddi atvikið á taílenska þinginu, að því er fram kemur í umfjöllun tailenska miðilsins Bangkok Post. Hún segist finna til með Ara, sem birti myndband af því á Facebook þegar hann rak hana af veitingastaðnum.
Sagði Ari að þingmaðurinn hefði skaðað Taíland með störfum sínum. Ari vildi ekki ræða málið við Vísi en áður hafa tailenskir miðlar sagt málið varða andstöðu Rojanasunan við stjórnmálaöfl sem vilji minnka áhrif konungsfjölskyldunnar í Taílandi.
„Ég hef upplifað mörg svona atvik, hatur sem byggir á því að við þekkjumst ekki. Ég finn bara til með honum,“ hefur taílenski miðillinn eftir þingmanninum. Hún segist ekki hafa búist við því að atvikið myndi vekja slíka athygli.
Þá segir hún Ara hafa rekið sig út af staðnum líkt og hún væri dýr. Hann hafi öskrað á sig bæði á ensku og taílensku. Hún hafi ákveðið að yfirgefa staðinn þegar í stað.
„Ef ég hefði verið lengur þá hefði það getað stuðlað að ofbeldi, af því að hann otaði puttanum framan í mig....eins og ég væri svín eða hundur,“ segir þingmaðurinn. Hún segist ekki vera miður sín eftir atvikið, reynslu sinnar vegna.