Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, segir í samtali við Vísi að staða rannsóknar lögreglu sé óbreytt. Hún gangi hægar en vonir stóðu til um.
„En við erum samt bjartsýnir á að þetta mál verði leyst. Að öðru leyti er ekki miklu við þetta að bæta.“
Áður hefur lögregla sagt það koma til greina að birta myndir af árásarmönnunum, sem voru tveir. Eiríkur segir það enn koma til greina.
„Við erum ennþá að vinna úr myndefninu. Það verður tekin ákvörðun um það síðar, ef ekki tekst að hafa upp á þeim, hvort við munum birta myndir og leita til almennings eftir upplýsingum.“
Er þetta mikið myndefni?
„Já. Þetta eru töluvert margar vélar sem við erum að skoða myndefni úr,“ segir Eiríkur. Hann segir lögreglu þannig skoða myndefni úr eftirlitsmyndavélum.
Ráðist var á manninn á Hverfisgötu í miðborg Reykjavíkur þar sem hann var á leið á hótel sitt eftir kvöldverð. Mennirnir tveir komu aftan að honum og veittust að honum með höggum og spörkum.
Lögregla hefur áður sagt að hún útiloki ekki að um hatursglæp hafi verið um að ræða. Kannað sé hvort árásin hafi tengst kynhneigð eða kynvitund mannsins. Málið sé litið mjög alvarlegum augum.