Eins og fram kemur í frumvarpi til fjárlaga ársins 2024 hækkar mat tekna af eignarsköttum um 3,5 milljarða króna frá fjármáláætlun og er það að nær öllu leyti vegna mikils vaxtar tekna af erfðafjárskatti á yfirstandandi ári sem hefur grunnáhrif á áætlun ársins 2024.
Í svari við fyrirspurn Vísis til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hækkunina segir að undanfarin ár hafi orðið veruleg aukning á erfðafjárskatti. Eignastaða hafi þar nokkur áhrif, en auk þess hafi orðið veruleg aukning í fyrirframgreiðslu arfs frá því sem áður var.
Skattfrelsismörk vega þungt
Fyrirframgreiddur arfur er skattskyldur með tíu prósent skatthlutfalli á sama hátt og arfur af dánarbúi en án skattfrelsismarka. Skattfrelsismörk erfðafjárskatts eru 5.757.759 krónur árið 2023.
Hann kemur til vegna ákvarðana einstaklinga og aðrir skýringarþættir eru þar að baki en í tilviki dánarbúa. Erfðafjárskattur vegna fyrirframgreidds arfs kemur sem viðbót við hefðbundnar greiðslur erfðafjárskatta vegna dánarbúa.
Hlutfallið komið yfir sextíu prósent
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 er gert ráð fyrir því að erfðafjárskattur ársins 2024 verði um 14,5 milljarðar króna, sem er aukning um einn milljarð eða sjö prósent á milli ára.
Erfðafjárskattur ársins 2023 var áætlaður 8,8 milljarðar króna í fjárlögum 2023 en við gerð fjárlaga 2024 var sú tala enduráætluð og er gert ráð fyrir að erfðafjárskattur ársins 2023 verði um 13,5 milljarðar króna.
Í svari við annarri fyrirspurn Vísis segir að hlutfall fyrirframgreidds arfs hafi verið rúmlega 40 prósent á árunum 2021 og 2022 en nú sé útlit fyrir að það hlutfall verði yfir 60 prósent af erfðafjárskatti á ársins 2023.