Samkvæmt bandarískum miðlum verða landamærin opin í nokkrar klukkustundir. Bifreiðar með hjálpargögn eru þegar sagðar bíða í röðum eftir að komast yfir og þá er gert ráð fyrir því að erlendir ríkisborgarar muni geta farið yfir til Egyptalands.
Staðan virðist þó óljós en fregnir hafa borist af því að skrifstofa Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hafi borið til baka staðhæfingar heimildarmanna Reuters um tímabundið vopnahlé í suðurhluta Gasa, sem Ísraelar, Egyptar og Bandaríkjamenn voru sagðir hafa náð saman um.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við 60 Minutes sem birt var í gær að það þyrfti að tortíma Hamas en á sama tíma þyrfti að varða leið að palestínsku ríki. Hann sagði að það yrðu mikil mistök að hernema Gasa.
Biden sagði Hamas-liða „gungur“ sem feldu sig á bak við almenna borgara. Þá sagðist hann þess fullviss að Ísraelsmenn myndu fara að alþjóðalögum í aðgerðum sínum gegn Hamas.