Einn þeirra sem fluttur var á slysadeild var inni í herberginu þar sem eldurinn kom upp. Sá er talinn í lífshættu.
Hinir tveir sem fluttir voru á slysadeild höfðu komist út af sjálfsdáðum. Annar þeirra var með smávægileg brunasár, en hinn með reykeitrun.
Slökkvilið var engu nær um eldsupptök þegar rætt var við Jörgen Valdimarsson varðstjóra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Þetta var að vísu ekki hlaupahjól eins og er búið að vera mikið hjá okkur undanfarið. Við erum ekki nær um það, en það er í höndum lögreglu að rannsaka vettvanginn,“ sagði Jörgen.

Sumir íbúar komnir inn
Búið er að hleypa íbúum í hluta hússins aftur inn.
„Á efri hæðina, hún er með sérinngang, og á vestari hlutann á fyrstu hæðinni þar sem var enginn reykur og enginn eldur.“
Ekki liggur fyrir hversu margir búa í húsinu, en íbúi sem fréttastofa ræddi við í dag áætlaði að 20 til 30 manns byggju á efri hæðinni. Jörgen kvaðst ekki geta svarað fyrir það hvort húsið væri samþykkt íbúðarhúsnæði.
Höfðuð þið vitneskju um að það væri búið í húsinu og var búið að gera einhverja úttekt, til dæmis á eldvörnum?
„Ég hef ekki upplýsingar um hvort það hafi verið búið að gera úttekt, það er önnur deild innan slökkviliðsins sem sér um það. En vissulega vissum við að það væri búið í þessu húsi. Við höfum verið að koma hér á sjúkrabílum og við fengum líka upplýsingar um það á leiðinni að hér byggi fólk. Þannig að við vorum viðbúnir því að við þyrftum hugsanlega að bjarga einhverjum út,“ sagði Jörgen.