Skoðun

Grænir kjara­samningar

Kolbrún Halldórsdóttir skrifar

Það er sameiginlegt verkefni þjóða heimsins að vinda ofan af loftslagsbreytingum og þeim skaðlegu áhrifum sem þær munu hafa á hag framtíðarkynslóða. Áhrifin birtast okkur nú þegar í stórfelldum fólksflutningum frá þeim svæðum sem þegar eru að kljást við afleiðingar ofsahlýnunar, í súrnun sjávar og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Á Norðurlöndunum og í ýmsum aðildarríkjum ESB er nú uppi ákall um árangursríkari ráðstafanir til að vinna gegn neikvæðum áhrifum atvinnustarfsemi á loftslag og náttúru, sem skilað geti jákvæðum breytingum fyrir mannkyn og móður Jörð. Eitt af tækjunum sem bent er á til að sinna þessu ákalli eru grænir kjarasamningar. Hér má Ísland ekki láta sitt eftir liggja.

Kjarasamningar eru öflug tæki

Samningar aðila vinnumarkaðar munu skipta höfuðmáli í viðleitni okkar til að hafa jákvæð áhrif í baráttunni við loftslagsvána. Kjarasamningar hafa grundvallandi áhrif á velferð samfélaga. Þeir eru samningar milli tveggja jafnrétthárra aðila, launagreiðenda og launafólks, og spila lykilhlutverk í framþróun samfélagsins. Með því að beita þeim í þágu umhverfisverndar er líklegt að áhrifanna gæti hraðar en með öðrum seinvirkari aðferðum. Öflugustu tækin í kjarasamningum sem við höfum til að mæta þessum áskorunum eru samgöngustyrkir, aukin fræðsla, þjálfun og endurmenntun allra sem í hlut eiga og eru þátttakendur í þeirri starfsemi sem um ræðir. Fræðslan þarf að fjalla um breytta aðferðafræði í starfsemi fyrirtækja og stofnana, auk þess sem endurskilgreina þarf þá þætti sem hafa áhrif á hagvöxt; draga úr vægi fjárhagslegra þátta og auka vægi samfélagslegra þátta, allt í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar eins og henni í lýst í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og áformum stjórnvalda um sjálfbært Ísland. Auka þarf fræðslu um vinnumarkaðinn almennt, en ekki síst þær atvinnugreinar sem hafa mikil áhrif á loftslag og umhverfi. Þar koma til álita atvinnugreinar sem byggja á auðlindanýtingu hvers konar, hvort sem um er að ræða land, loft, ferskvatn, jarðvarma eða sjávarauðlindina.

Stjórnvöld tryggi réttlát græn umskipti

Stjórnvöld leggja áherslu á að umskiptin í átt að grænni framtíð verði réttlát og þurfi að eiga sér stað í flestu tilliti er varðar umgengni okkar við náttúru og lífríki. Stjórnvöld hafa sent skilaboð út í samfélagið um að hér sé um sameiginlegt átak að ræða, sem við þurfum öll að taka þátt í. Þættir sem komið hafa til tals í tengslum við réttlát græn umskipti eru breytingar á störfum á vinnumarkaði, sum störf hverfa og ný störf verða til. Í því sambandi ber að hafa í huga mismunandi áhrif á ólíka hópa, fólk sem er jaðarsett að einhverju leyti, t.d. vegna aldurs eða fötlunar. Efnahagslegra áhrifa gætir í raun nú þegar í umhverfisskattlagningu á allan almenning. Yfirlýst stefna verður að fela í sér að umskiptin m.a. þegar kemur að skattlagningu og hvötum séu innleidd með sem sanngjörnustum hætti.

Skorum á aðila vinnumarkaðar

Innan BHM er þegar hafin umræða um þá möguleika sem kunna að felast í nálgun af þessum toga og skorar bandalagið á aðra aðila vinnumarkaðarins að sýna frumkvæði og áræðni í þessa veru. Kjarasamningar eru framundan og við öxlum ábyrgð með því að beita kjarasamningum í þágu umhverfisverndar. Þannig stefnum við sameiginlega í átt að grænum umskiptum í þágu loftslags, lífríkis og samfélags.

Höfundur er formaður BHM.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×