Þetta segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar er haft eftir Árna Jónssyni, forstöðumanni Laugardalslaugar, að nóg hafi verið að gera við lagfæringar á lauginni og hvergi slegið slöku við. Meðal framkvæmda á meðan á lokun hefur staðið sé málun í útibúningsklefum og í laugarkeri, múrvinna á bakka og í laug, viðgerð á pípulögnum, útskipting á kýraugum og lokun yfir hluta af stærri gluggum, aðskilja laugarker, þrif á yfirfallsrennum, djúpþrif á laugarbotni, þrif og viðhald á heitum pottum, viðgerðir á hurðum og ýmislegt annað.
„Það eru nokkrir óvissuþættir sem tengjast því að fylla laugarkerið sjálft en við erum bjartsýn á að það gangi allt vel. Heitir pottir verða komnir í fullan rekstur á föstudag og við gerum svo sannarlega ráð fyrir því að hægt verði að synda í lauginni. Takk fyrir þolinmæðina ágætu sundlaugargestir. Við hlökkum mikið til að taka á móti okkar dásamlegu gestum á föstudaginn,“ er haft eftir Árna.