Forsjáraðilar þurfa nú ekki báðir að mæta með börnum sínum til sýslumanns til að sækja um vegabréf. Það er meðal breytinga sem nú hefur verið gerð eftir að sýslumenn og Þjóðskrá hafa opnað fyrir forskráningu og greiðslu fyrir vegabréfsumsóknir á á island.is.
Með forskráningu og greiðslu á Ísland.is er umsóknarferlinu hraðað á þann hátt að umsækjandi hakar einfaldlega við á Ísland.is að hann óski eftir vegabréfi, gengur síðan frá greiðslu og mætir að lokum til sýslumanns beint í myndatöku til að klára umsóknarferlið.
Það er hægt að gera á hvaða skrifstofu sýslumanns sem er á landinu óháð því hvar þeir búa. Hægt er, samkvæmt tilkynningunni, að bóka tíma í myndatöku á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þarf að bóka tíma á öðrum umsóknarstöðum.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að útgefin vegabréf á þessu ári eru farin að nálgast 48.000. Flest vegabréf á einu ári voru gefin út árið 2016 þegar um 76.000 vegabréf voru gefin út.
Fyrr á árinu var handhöfum íslenskra vegabréfa gert kleift að skoða upplýsingar vegabréfa sinna og barna sinna á netinu.