Heimildir Vísis herma að lögmaðurinn, sem er eigandi á einni stærstu og virtustu lögmannsstofu landsins og hefur reglulega ratað ofarlega á blað í tekjublöðum, hafi veist að verslunareiganda í verslun hans í miðbænum á miðvikudag.
Verslunareigandinn er eiginmaður annars eiganda á sömu lögmannsstofu og árásin er sögð tengjast sambandi lögmannanna tveggja. Í frétt Mannlífs, sem greindi fyrst frá málinu, segir að verslunareigandinn hafi hlotið brákuð rifbein og áverka á hálsi og nefi eftir árásina.
Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögreglþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að engin kæra hafi borist vegna málsins og það sé ekki til rannsóknar.
Fari svo að málið rati til lögreglu og endi með sakfellingu fyrir líkamsárás mun lögmaðurinn tapa málflutningsréttindum sínum, enda mega lögmenn ekki hafa gerst sekir um refsiverðan verknað.
Hvorki hefur náðst í lögmanninn né verslunareigandann.