Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir að deildarmyrkvi á tungli verði þegar tunglið gangi að hluta til inn í skuggann sem jörðin varpar út í geiminn.
„Þegar fólk lítur til himins í kvöld á tunglið, svona í kringum átta eða upp úr átta, að þá sér það að það er svona eins og það vanti syðsta hlutann. Svona pínulítinn hluta syðsta hluta tunglsins. Og það er sem sagt skugginn á jörðinni sem er að varpa þar yfir,“ segir Sævar Helgi.
Veðrið er með fínasta móti víðs vegar á landinu og ættu því margir landsmenn að geta séð deildarmyrkvann.
„Þetta eru bara kjöraðstæður til að líta eftir þessu og ég hvet flesta til að gjóa augunum eftir þessu. Af því tunglið er aðeins furðulegra á að líta þegar það vantar pínulítinn hluta af því. Þetta stendur yfir í tæplega klukkutíma, svona rétt rúmlega klukkutíma. Byrjar núna 25 mínútur í átta og lýkur þessu rétt fyrir níu.
Hann segir að deildarmyrkvar á tungli séu tiltölulega algengir og gerist á hálfs árs fresti, einhvers staðar í heiminum.
„Hins vegar er fyrsti vetrardagur í dag og það hefur ekki verið deildarmyrkvi eða tunglmyrkvi á fyrsta vetrardegi síðan 21. október árið 1901. Þannig að það er nú tiltölulega sjaldgæft,“ segir Sævar Helgi að lokum.