Virði fyrirtækisins hefur þá lækkað um 55 prósent á þessu eina ári.
Á þeim tíma hefur Musk sagt upp meirihluta starfsmanna, dregið verulega úr ritstjórn og hleypt fólki sem hafði verið bannað á Twitter aftur þar inn. Þetta hefur leitt til þess að auglýsingatekjur fyrirtækisins hafa dregist verulega saman þar sem auglýsendur hafa dregið úr umsvifum sínum á samfélagsmiðlinum.
Minni tekjur og meiri skuldir
Eins og frægt er keypti Musk Twitter í fyrra á 44 milljarða dala. Eftir að hann skrifaði undir kaupsamning reyndi Musk ítrekað að komast undan honum og sleppa við kaupin. Hann sakaði stjórn Twitter meðal annars um að hafa ekki útvegað sér gögn sem hann bað um varðandi raunverulegan fjölda falskra reikninga, eða botta, á samfélagsmiðlinum.
Við kaupin stigmögnuðust skuldir fyrirtækisins og vaxtagreiðslur hækkuðu til muna. Þá hefur Musk sagt upp meira en helmingi starfsmanna fyrirtækisins og hefur hann verið sakaður um að greiða ekki reikninga og leigu, svo eitthvað sé nefnt.
Musk hefur einnig látið færa ýmsa anga X sem hafa verið ókeypis í gegnum árin undir áskriftarþjónustu X. Þá sjá notendur ummæli áskrifenda ofar en svör þeirra sem ekki greiða fyrir áskrift og er fyrirtækið að gera tilraunir með að láta alla nýja notendur að X greiða einn dal í áskrift á mánuði, fyrir það að geta exað og átt í samskiptum við aðra.
Sjá einnig: Skoða að rukka nýja notendur um dal á ári
Musk hefur sagt að hann geti ímyndað sér að X verði eitt sinn um 250 milljarða dala virði. Hann sagði að það yrði þó erfiður árangur að ná.
Hann vill gera X að því sem Musk hefur sjálfur lýst sem „allt forrit“ eða „everything app“ þar sem notendur munu geta átt í samskiptum við aðra, horft á myndbönd og jafnvel greitt reikninga.
Ráðamenn í Evrópusambandinu hafa þrýst töluvert á forsvarsmenn X og segja fyrirtækið brjóta gegn reglum sambandsins. Fregnir hafa borist af því að Musk hafi velt upp möguleikanum að loka á X í Evrópu, en hann hefur þvertekið fyrir að það sé rétt.