Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson var á hápunkti ferils síns árið 2021, þegar nokkrar konur sökuðu hann um að hafa brotið á sér. Auðunn gaf frá sér yfirlýsingu og viðurkenndi að hafa farið yfir mörk einnar konu en í kjölfarið stigu fleiri fram og lýstu slæmri reynslu.
Í viðtali við Ísland í dag í fyrra steig Auðunn fram og sagðist axla ábyrgð á sumum af þeim ásökunum sem á hann voru bornar en hafnaði algjörlega orðrómum um til að mynda þöggunarsamninga og brot gegn ólögráða stúlkum.
Málið hafði miklar afleiðingar á feril Auðs og dró hann sig úr sviðsljósinu. Í febrúar bárust fréttir af því að hann væri fluttur til Los Angeles en þar starfar hann sem hljóðupptökustjóri og lagahöfundur.
Hlakkar til að komast í sund og gufu
Lítið hefur farið fyrir Auðni undanfarna mánuði en nú virðist hann vera tilbúinn til að koma út úr skelinni á ný. Hann tilkynnti á Instagram síðu sinni fyrr í dag að hann myndi halda tónleika hér á landi, í Iðnó, í desember.
„Ég er ógeðslega spenntur að koma til Íslands og halda þessa tónleika,“ sagði Auðunn á Instagram.
Þetta verður svolítið sérstök og dýrmæt stund, að ég vona og trúi og heiti.
Í samtali við fréttastofu segist Auðunn hafa verið á leið heim til Íslands til að eyða jólunum með vinum og fjölskyldu þegar hann ákvað að slá til og halda tónleikana.
„Það er svo gaman að halda tónleika í desember, þá er fólk í tónleikagír og svona öðruvísi stemning.“
Gestir mega eiga von á gömlu og góðu efni í bland við nýja tónlist. Þá sagði hann að tónleikarnir yrðu einu tónleikarnir hér á landi í ár en mögulega yrðu þeir fleiri í framtíðinni.
Aðspurður um hvernig honum líkaði lífið í LA sagði Auðunn það frábært. Síðan hann flutti út í febrúar hafi hann unnið að tónlist á hverjum einasta degi.
Það er mjög insperandi að vera hérna úti í fjölmenningarsamfélagi þar sem er hægt að fá innblástur frá svo mörgum.
Hann hlakkar þó til að komast í sund og almenninlega gufu þegar hann kemur heim til Íslands.
„Fólkið í ræktinni sem ég er í fer fullklætt í saunu, jafnvel í sokkum og skóm. Maður á ekki orð eiginlega.“
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið sem birtist við Auðunn í fyrra.