Venjulega er ríkisborgurum ríkja utan Evrópusambandsins snúið við á landamærum Finnlands en Niinistö sagði í gær að hann teldi að Rússar væru farnir að beina hælisleitendum að landamærastöðvum í Finnlandi til að hefna fyrir fyrirætlun Finna um að undirrita samkomulag í varnarmálum við Bandaríkin.
Landamærin Rússlands og Finnlands eru 1.335 kílómetra löng og spennan í samskiptum ríkjanna hefur aukist til muna eftir að Finnar sóttu um og fengu aðild að Atlantshafsbandalaginu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Öryggisyfirvöld í Finnlandi hafa meðal annars varað við auknum tilraunum til netnjósna.
Á mánudag komu 39 að landamærstöð í suð-austurhluta Finnlands og sóttu um hæli. Á þriðjudag voru hælisleitendur 55 og 74 í gær. Niinistö telur víst að um sé að ræða aðgerð af hálfu Rússa og að gera þurfi ráðstafanir til að mæta fjölguninni.
Finnska þingið samþykkti lög í fyrra sem heimila útlendingayfirvöldum að hætta að taka á móti hælisumsóknum ef talið er að um sé að ræða „fjöldaviðburð“ skipulagðan af öðru ríki.
Maria Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, segir ásakanir Niinistö byggja á sandi og þá hefur Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, sagt þau harma þá ákvörðun Finna að hverfa frá góðu tvíhliða samstarfi.