Skoðun

Hag­fræði, þekking, verð­leikar og vist­kreppa 1

Viðar Hreinsson skrifar

Hagmenni meginstraumsins

Fyrsta grein af fimm sem birtast munu á 4-5 daga fresti, um hagfræði, jöfnuð, vistkreppu og velsæld.

Átjánda mars árið 1968 hélt Robert F. Kennedy fræga ræðu í Kansasháskóla. Hann stefndi hraðbyri að útnefningu Demókrata í komandi kosningum. Þetta var á róstutímum stúdentauppreisna, upplausnar gamalla gilda og mótmæla gegn Víetnamstríðinu. Kennedy var þekktur fyrir stuðning við mannréttindi og samfélagslegan jöfnuð. Eftir að hafa talað um fátækt og hungur barna í Missisippi og sjálfsmorðstíðni meðal bláfátækra indíána á verndarsvæðum hélt hann áfram:

„En jafnvel þótt við vinnum að útrýmingu efnalegrar fátæktar, er annað enn stærra verkefni, sem er að ráðast gegn skorti á fullnægju – tilgangs og reisnar – sem þjakar okkur öll. Of mikið og of lengi virðumst við hafa afsalað okkur persónulegu ágæti og samfélagsgildum í einberri sókn eftir efnislegum gæðum. Landsframleiðsla okkar er nú meira en 800 milljarðar dala á ári, en þessi [...] landsframleiðsla telur með loftmengun og sígarettuauglýsingar, og sjúkrabíla til að fjarlægja blóðbaðið af hraðbrautum okkar. Hún telur með sérstaka lása fyrir útidyr okkar og fangelsin fyrir þá sem brjóta þá upp. Hún telur eyðingu risafuranna og missi náttúruundra okkar í stjórnlausri útþenslu. Hún telur napalm og telur kjarnorkuodda og brynvarða bíla fyrir lögregluna til að berjast gegn uppþotum í borgum okkar. Hún telur riffla Whitmans [fjöldamorðingja sem féll 1. ágúst 1966 eftir að hafa drepið sextán manns] og hnífa Specks [drap átta hjúkrunarnema með hníf sumarið 1966] og sjónvarpsþættina sem upphefja ofbeldi til þess að selja börnum okkar leikföng. Samt tekur landsframleiðslan ekki með í reikninginn heilsu barna okkar, gæði menntunar þeirra eða gleðina í leikjum þeirra. Hún tekur ekki með fegurð skáldskapar okkar eða styrkinn í hjónaböndum okkar, vitneskjuna í opinberum rökræðum okkar eða heiðarleika opinberra embættismanna okkar. Hún mælir hvorki andríki okkar né hugrekki, hvorki visku okkar né lærdóm, hvorki samúð okkar né föðurlandshollustu, hún mælir í stuttu máli allt nema það sem gerir líf okkar þess virði að lifa því.“

Ellefu vikum síðar var hann skotinn, að sögn vegna stuðnings hans við Ísrael í sex daga stríðinu. Þessi gagnrýni á hagvöxtinn fjaraði út, Nixon var kosinn forseti, Gerald Ford tók við eftir að hann hrökklaðist frá, síðan var öðlingurinn Jimmy Carter kosinn. Ronald Reagan sigraði hann svo í kosningunum 1981, maður sem ruglaði saman veruleikanum og bíómyndunum sem hann lék í. Þá hafði Margaret Thatcher verið við völd í tvö ár, nýfrjálshyggjan gekk í garð og enginn efaðist upphátt lengur um hagvöxt sem markmið í sjálfu sér. Og nú er sú frjálshyggja orðin nokkuð gömul en langt komin með að leggja mannlíf á jörðu í rúst.

Hagfræði íslenskra ráðamanna?

Á Íslandi fer lítið fyrir umræðu um samband stöðugrar kröfu hagvaxtarhugmyndarinnar um aukna framleiðslu við þessa eyðileggingu en sífellt þrakkað um verðbólgu og vaxtahækkanir, með tungutaki sem margir þykjast skilja, fáir skilja í raun og enn færri sjá í gegnum. Seðlabankastjóri, sem í hjáverkum nappar hugmyndum fræðimanna og birtir jafnvel sem sínar eigin, styður af alefli við heilagt fjármálakerfi. Uppgjafafjármálaráðherra heldur að í hagkerfinu ríki eitthvað í ætt við náttúrulögmál: „Við þurfum að undirgangast viðurkennd lögmál hagfræðinnar ...“ sagði Bjarni Benediktsson í fyrra eftir eina vaxtahækkunina og skammaði þá sem skömmuðu seðlabankastjóra (sjá hér). Hann útskýrði ekkert nánar hvaða lögmál þetta væru en þau virðast vera trúarígildi og því mætti hann tileinka sér orð séra Hallgríms um himnaföðurinn í tólfta Passíusálmi til að milda áhrifin á okkur hversdagsfólkið: „Lætur hann lögmál byrst / lemja og hræða. / „Eftir það fer hann fyrst / að friða og græða.“

Hinir betur stæðu og forríku tala ábúðarfullir um ábyrgð og verðbólgu eins og þeir viti hvað hugtakið ábyrgð merkir þótt megineinkenni þeirrar eignarhaldsflækju sem drjúgur hluti stórfyrirtækja er hluti af sé einmitt að firra einstaklinga persónulegri ábyrgð á fjármálagjörningum. Þeirra ábyrgð er ekki önnur en sú að gæta hagsmuna hluthafanna, sem er ofar öllu siðferði, löghelgað í nýfrjálshyggjunni og þaulskipulagðri valdsókn hennar sem hefur nú verið rækilega kortlögð hvað Ísland varðar í nýrri og stórmerkilegri bók Þorvalds Logasonar: Eimreiðarelítan - spillingarsaga.

Sú hugsun ágerist að seðlabankastjóri viti ekki almennilega hvað hann er að gera, nema vilji hans sé ekki annar en sá að styðja fjármagnseigendur í þeirri trú að aðeins þar sé að finna lausn vandans, enda vann hann í Kaupþingi og var eitt af andlitum útrásarinnar fyrir hrunið 2008. Véfréttastíll hans í viðtölum sé til þess að breiða yfir þá hugsun. Nema hann haldi bara dauðahaldi í handónýt og úrelt viðhorf og samhengislaust skilningsleysi á gangverki og innviðum samfélags þannig að vaxtahækkanirnar bitna á þeim sem síst skyldi en þeir græða sem ekki þurfa á því að halda. Á sama hátt birtist í öllu tali fjármálaráðherrans fyrrverandi brenglað hlutfall valds og yfirsýnar. Valdið er mikið en samfélagsleg og menningarleg yfirsýn ekki meiri en hagtölur bankans leyfa. Skilningsleysið er slíkt að óhugnanlegt er að maður með svo víðtækt samfélagsvald skuli aldrei sjá upp úr hólfum excelskjalanna nema þegar hann skreytir kökur.

Ævintýri hagfræðinnar

Fyrir rúmu ári síðan var hér á landi og hélt fyrirlestur við Háskóla Íslands umhverfishagfræðingurinn Jon D. Erickson. Í leiðinni kynnti hann þá væntanlega bók sína The Progress Illusion. Reclaiming our Future from the Fairytale of Economics sem kom út 1. desember 2022. Bók Ericksons staðfestir djarflega grunsemdir um að meginstraumshagfræði, eða hagfræði nýfrjálshyggjunnar sem hefur verið nær einráð í um hálfa öld, hafi varla traustari vísindagrunn en gullgerðarlist hafði fyrr á öldum, þegar fólk blandaði saman ýmsum efnum til að búa til gull. Sú forna list er þó móðir efnafræðinnar. Það hefur hins vegar lengi verið ein meginstoð klassískrar hagfræði að byggja ekki á neinum efnislegum forsendum, heldur hanga í lausu lofti án beinna tenginga við áþreifanlegan veruleika og neita að viðurkenna þörf fyrir slík tengsl. Hagfræði gengur út á útreikninga á grunni mælinga og upplýsinga en þekkingarforsendur geta verið vægast sagt vafasamar ef þær eru nánast gefnar fyrirfram og lítt skeytt um jarðtengingu þeirra. Því er ekki að undra að skoðanir séu skiptar og margir haldi að altæk lögmál séu á ferð.

Erickson lýsir þessum straumi hagfræðinnar þannig að hann sé sjálfhverfur, þar vitni menn hver í annan í lokuðum heimi sem sé í beinum hagsmunatengslum við viðskiptalífið. Varðmenn hans starfi við hátt skrifaðar hagfræðideildir, vitni hver í annan og kjósi hver annan í stjórnir akademískra tímarita og fagfélaga og ráði stúdenta hvers annars til starfa (bls. 7). Fulltrúum þessarar samofnu hagsmunagæslu er svo plantað sem víðast um fjármálakerfi heimsins.

Þannig er hagfræðimenntunin einangruð frá þeim áþreifanlega veruleika samfélagsins þar sem menn ættu að bera ábyrgð á gjörðum sínum og „fullkomnuð þegar allar siðferðislegar eða vísindalegar efasemdir hafa verið settar til hliðar.“ Lokaafurðin er skynsamur, „yfirvegaður, hlutlægur sannleiksleitandi sem ætlað er að meta fjárhagslegan kostnað og ábata hverrar nýrrar athafnar“ og hlutleysi hans felst í því „að leita að hinum fyrirfram ákveðna sannleik þar sem einungis markaðirnir geta úthlutað auðlindum með skilvirkum hætti (þeir sem ekki hafa neina kaupgetu verða bara að leggja harðar að sér).“ (bls. 9-10)

Í þessari mynd hagfræðinnar felst allsherjarviðurkenning á einhæfri heimssýn en um leið vitsmunaleg innræktun sem breiðir yfir þá fjölbreytni sem einkennir flókinn heim. „„Klassísk“ hagfræði sem átti nokkrar rætur í siðfræði var látin víkja fyrir upphöfnu útreikningakerfi jafna sem teknar voru sem gefnar á kostnað allra siðferðislegra efasemda um hreina eiginhagsmuni“ (bls. 35, Adam Smith (1723-1790), jafnan talinn faðir hinnar klassísku hagfræði var siðfræðingur).

Frjálst fjármagnsflæði og draugur í vél

Annar hornsteinn þessarar hagfræði er hinn svokallaði frjálsi markaður og frjálst flæði fjármagns, mantra sem hvarvetna er þulin. Í henni felst að þetta frelsi eigi að leiðrétta allan samfélagsvanda sjálfkrafa og oft er þetta markaðsfrelsi með röngu tengt við lýðræði. Þessi hugsun gengisfellir hugmyndir um frelsi því hugtakið er flókið og samhengið jafnan fjölþætt. Allt er hvað öðru háð í þeim flókna og flæðandi vef sem veröldin er. Einhvern tíma í fyrndinni kann að hafa verið til frjáls verslun milli fólks en nú fer yfirgnæfandi meirihluti þeirra viðskipta sem skipta almenning máli fram milli risastórra (alþjóðlegra) fyrirtækja og frelsið felst helst í því að velja á milli Pepsi og Coca Cola.

Ekki má gleyma að Adam Smith var siðfræðingur og að sögn Ericksons losuðu hann og aðrir frumkvöðlar hagfræðinnar sig ekki að fullu frá siðferðislegri hugsun. Það var franski stærð- og hagfræðingurinn Léon Walras (1834-1910) sem steig skrefið til fulls í átt að hreinum stærðfræðigrunni fræðigreinarinnar og vann um leið nokkurn bug á dulinni eðlisfræðiöfund hennar (bls 35-36). Þar með tók hagfræðin á sig ýktustu birtingarmynd þeirrar firrtu skynsemi sem náði fótfestu í nafni vísindabyltingar og upplýsingar á sautjándu og átjándu öld, krydduð með grimmdarlegri hugmynd enska sautjándu aldar heimspekingsins Thomasar Hobbes um slagsmál allra gegn öllum.

Vísindabyltingunni fylgdi sú hugmynd að náttúran væri vél sem hægt væri að ná fullum tökum á. Þessi vélhyggja og sú náttúrudrottnun sem henni fylgdi hefur valdið djúpstæðu rofi og jafnvel hreinum aðskilnaði í sambúð manns og náttúru og er meginorsök vistkreppu nútímans. Vélhyggjan lifir enn góðu lífi í margvíslegri tæknihyggju sem gegnsýrir drjúgan hluta vísinda og mestallt pólitíska litrófið en þó er um þessar mundir mikil gerjun í gangi sem hafnar henni og lítur frekar á heiminn sem lifandi ferli breytinga. Hugsunarháttur vélhyggjunnar hefur valdið margvíslegum skaða á ótal sviðum. Til að mynda er hún nokkuð hreinræktuð á bak við ómanneskjulegar reglur dauðhreinsaðs snertingarleysis á vöggustofu Thorvaldsenfélagsins sem rekin var á árunum 1952-1967 og hefur undanfarið verið í brennidepli.

Talið var að með beitingu hreinnar stærðfræði gæti hagfræðin rifið sig lausa frá heimspeki og orðið „alvöru“ vísindaleg félagsvísindi segir Erickson og með því hafi hún snúist til hreinnar vélhyggju (bls 35-36, 126). Nú er svo komið, segir hann, að hagfræðistúdentar efast um homo economicus, hinn hagsýna mann sem er þó ekki annað en tilbúið vélmenni hagfræðinnar, draugur í hagfræðimaskínunni, ýkt hryggðarmynd hins ofurskynsama einstaklings sem aldrei hugsar um annað en eigin fjárhag. Hann er svo fjarri öllum þekkjanlegum veruleika að jafnvel harðsvíruðustu eiginhagsmunaseggi skortir þá skynsemi sem hann hefur til að bera. Samt er þetta kjölfesta meginstraumshagfræðinnar, byggð á mannskilningi sem hvergi er til annarsstaðar (bls. 3, 48) og kemur heimi raunveruleikans lítið við.

Homo economicus er afskræming mannlegrar tilveru í gegndarlausri uppsöfnun auðmagns, samfara blindri upphafningu vörugervingar og skiptagildis sem er á kostnað notagildis eða raunverulegra þarfa, sem erfitt er að skilgreina. Markaðshagkerfið stritar hins vegar stöðugt við að búa til nýjar þarfir að uppfylla. Góðskáldið Sigfús Bjartmarsson hefur ort magnaðan, bókarlangan kvæðabálk um kappann, Homo economicus I, sem kom út árið 2018, þar sem þessi erindi standa um tilurð hans í þróunarsögunni:

Eigingirni er okkar kjarni

Allir hugsa fyrst um sitt

Síngirni er vort sanna eðli

Síngjarn gefur skít í þitt.


Það var yfirburða eigingirni

Sem apa breytti í sapiens.

Mót þeim ágæta eiginleika

Áttu skepnur lítinn séns. (bls. 74)

Draugagangur í skólakerfinu

Homo economicus er leiðarljós nútíma hagstjórnar ásamt háheilagri hugmynd um hagvöxt. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur látið í té býsna augljóst dæmi um botnleysi þessara grunnhugsunar, forsenduleysi hagfræðigreiningar. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands nr. C15:03 sem hann skrifaði og ber heitið „Efnahagsleg áhrif af styttingu framhaldsnáms“ birtist þessi loftkennda forsendugjöf:

„Sú forsenda er einnig gefin að þrátt fyrir styttingu námsins í almanaksárum talið muni íslenskir nemendur fá jafngóðan undirbúning fyrir bæði nám og starf að útskrift lokinni með breyttu námsfyrirkomulagi, s.s. með lengingu skólaársins. Það er heldur ekki markmið þessarar greiningar að meta ýmsar kerfisbreytingar, s.s. á námskrá eða fyrirkomulag námsins, sem hljóta að fara fram samhliða því að námstíminn styttist um eitt almanaksár. Skal öðrum fróðari látið það verk eftir“ (bls 2, sjá hér)

Skólamenn eru nokkuð sammála um að stytting framhaldsskólans um eitt ár hafi verið vanhugsað glapræði eins og reyndar margar ákvarðanir stjórnvalda sem byggjast á hreinum þekkingarskorti hagrænna athugana. Nú síðast má benda á lokun skjalasafna Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar á grundvelli úttektar endurskoðunarfyrirtækis. Aðferð seðlabankastjóra, að gefa sér án frekari röksemda þá forsendu að undirbúningur nemenda sé jafngóður eftir breytinguna og í ofanálag sleppa því vísvitandi að reyna að greina mikilvæga þætti í heildarmyndinni og láta „öðrum fróðari ... það verk eftir“, gerir þessa skýrslu seðlabankastjórans einfaldlega marklausu plaggi, niðurstaðan er jafnvitlaus og forsendan er innantóm.

Aðferðin er honum og öðrum hagfræðingum af sama sauðahúsi greinilega inngróin og hefur í för með sér skaðlega einhæfa sýn. Tekist hefur að koma hagfræðivélmenninu svo kirfilega fyrir í stjórnkerfinu að stjórnmálamenn eru í raun fullkomlega vanmáttugir gagnvart þekkingarlegum botnleysum af þessu tagi sem minna helst á fræga sögu af Sölva Helgasyni sem sagðist hafa keppt í reiknikúnst við ítalskan stærðfræðing. Þeir fóru báðir létt með að reikna barn í konu en aðeins Sölvi gat reiknað það úr henni aftur.

Fjárnám hugarfars

Þessi hugsun frjálshyggjuhagfræðinnar sem Erickson lýsir felur í sér alræði fjármagns og það sem kalla má fjárnám hugarfars og tungumáls sem er löngu gegnsýrt af smættandi tungutaki verðgildis eða skiptagildis þar sem mannlegir eiginleikar eða tilvera eru hlutgerð sem stærðir í hagfræðilegum útreikningum. Sem dæmi má nefna að fólk er smættað í mannauð og hagstærðir, náttúran í auðlindir og öllu er snúið upp á fjárfestingu, jafnvel menntun. Sem er hlálegt því færa mætti rök fyrir því að þessi botnleysa sem hér hefur verið lýst stafi einmitt af menntunarskorti. Í þessu felst vaxandi alræði fjármagnsins sem er alltumlykjandi, gagntekur allt samfélagið og þrengir sér inn í flesta kima mannlífs og menningar. Í raun er á ferð alvarleg afmennskun. Þegar skynsemi er smættuð í hagnað og verðgildi felur það í sér dulið afsal hugsunar, rétt eins og hjá heittrúuðu fólki sem leggur líf sitt hendur guða án frekari umhugsunar. Sýn þessa straums hagfræðinnar hefur verið ráðandi í áratugi og stjórnmálamenn og viðskiptafrömuðir hafa beitt henni eins og vélmenni, ekki talið sig þurfa að segja annað en að þetta eða hitt sé þjóðhagslega hagkvæmt eða skapi hagvöxt. Víða virðist ríkja oftrú á mælingar og töluleg gögn. Það er svosem hægt að mæla hvað sem er en ekki er þar með sagt að mælingarnar séu réttar þótt þær séu settir inn í líkön og útreikninga. Slíkum gögnum þarf að fylgja auðmjúk viðurkenning á því að forsendurnar séu ekki fullkomnar. Óvissa verður að vera gagnsæ og auðmýkt gagnvart takmörkunum eigin þekkingar væri ágæt dyggð.

Alræði fjármagnsins náði hámarki hér á landi í aðdraganda hrunsins. Leikreglur fjármagnsins leyfðu að það yrði gert ósýnilegt og óskiljanlegt með stöðugri leikjafræði, vafningum og fléttuverki með eignarhald svo flóknu að einungis þrautþjálfaðir stærðfræðingar hentu reiður á. Fólk trúði að samfélagið snerist um þetta. Ógöngurnar spruttu af hóflausri spillingu samansúrraðs fjármagnsveldis og valdaelítu sem kennd er við Eimreiðarhópinn og er vel og ítarlega lýst í fyrrnefndri bók Þorvalds Logasonar um Eimreiðarelítuna. Þar sýnir Þorvaldur fram á þaulskipulagða og markvissa valdatöku og í kjölfarið spillingu elítu sem hvíldi í hugmyndafaðmi frjálshyggjunnar. „Leikur auðmannanna gekk út á að hætta sem minnstu af eigin fjármunum og bera sem minnsta ábyrgð sjálfir en hætta fé annarra. Þetta er í raun helsta íþrótt nútíma fjármálaauðvalds. Valdaelíturnar eru orðnar að hámenntuðum sérfræðingum í yfirfærslu ábyrgðar“ (Eimreiðarelítan – spillingarsaga,bls. 313). Þessi leikur þróaðist í gegnum spillta einkavæðingu sem náði hámarki í aðdraganda hrunsins. Gjörfirrt fjármálabrask komst á hagfræðilegt astralplan þegar skiptagildið sjálft, hugmyndin um skiptagildi í líki loftkenndrar viðskiptavildar, fór að ganga kaupum og sölum. Þetta sést býsna vel þar sem nokkrir helstu hrunverjar lýsa hugarfari sínu og hugsun í heimildamynd sem sýnd var í tveim hlutum í sjónvarpinu nýlega. Þeir nálguðust fjármálakerfið sem vél til að vinna með, tæknilega til þess að raka saman sem mestum auði en fæstir þeirra virðast hafa leitt hugann að víðara samfélagslegu samhengi, hvað þá ábyrgð. Að því leyti var þetta merkileg heimildamynd, hvað sem öðru líður.

Vistkreppan

Afleiðingar þess fjármagnsmiðaða hagkerfis sem allsráðandi hefur verið í heiminum blasa hvarvetna við í fjölþættri vistkreppu þar sem loftslagshamfarir og hrun vistkerfa með hnignandi lífbreytileika vega þyngst. Hugmyndin um hagvöxt er orðin ein meginstoð hagfræðinnar og er enn víðtækari en svo að hún eigi aðeins heima í frjálshyggjuhagspeki. Hún hljómar eins og eilíf kjölfestusannindi úr munni hagfræðinga, embættismanna og stjórnmálamanna. Altækt inntak hennar (almennt vaxandi gróði er náttúrlega eldri hugsun) spratt upp úr hugmyndinni um landsframleiðslu sem tæki til að átta sig á aðstæðum. Það var hugmynd sem John Maynard Keynes (1883-1946) átti þátt í að þróa en hagfræði hans snerist um að hafa stjórn á auðmagninu, hugmynd sem var náttúrlega kafskotin með frjálshyggjunni, enda varð hagfræði hans nánast skammaryrði á þeim bæ. Landsframleiðsluhugmyndin var nokkuð fullmótuð á stríðsárunum upp úr 1940 og fest í sessi með sögulegum fundi í Bretton Woods árið 1944 þar sem Vesturlönd komu skipan á fjármál heimsins með nýjum alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem voru nátengdir fjármálaráðueyti Bandaríkjanna í vanheilagri þrenningu, eins og Erickson orðar það (bls. 73). Tilgangurinn var þó að koma skikki á kapítalismann en þar með öðlaðist landsframleiðsla mæld með hagvexti lögmæti sem þróaðist í það trúarinntak sem ríkt hefur undanfarna áratugi. Nú er eyðingarafl hagvaxtarhyggjunnar er orðið geigvænlegt, enda hefur það veri augljóst hugsandi fólki í meira en hálfa öld. Frjálshyggjuhagfræðin hefur ekki fótfestu í efnislegum veruleika en drottnar aftur á móti yfir lífi og efnahag flestra.

Andóf gegn þessari hugsun fer hraðvaxandi, enda eru til margar gagnrýnar hliðar- og undirgreinar hagfræðinnar sem ekki hlíta þessari grundvallarhugmynd. Erickson segir að þegar vikið sé af alfaraleið rétttrúnaðarhagfræðinnar megi finna „aðra og nýja hagsögu, sögu sem tekur umhyggju, samfélag, og almannheill fram yfir ránskap, einstaklinga og hagnað“ (bls. 53).

Í næstu grein verður fjallað frekar um hagvöxt og gagnrýnar hugmyndir Ericksons og fleiri fræðimanna.

Höfundur er bókmenntafræðingur og áhugamaður um jöfnuð og framhald lífs á jörðinni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×