„Hugurinn er alltaf hjá börnunum“
Hann segir að hugur sinn sé hjá börnunum og að málið sé gríðarlega erfitt en að hvorki hann né ráðuneytið sitt hafi heimild til að gera neitt í málinu.
„Það er auðvitað alltaf þegar koma upp svona mál þá slær það mann ekki vel. Hugurinn er alltaf hjá börnunum sem um ræðir. Þetta er gríðarlega erfitt fyrir þau. En þetta mál er samt þannig að hvorki ég né mitt ráðuneyti höfum heimild til þess að blanda okkur beint inn í einstaklingsmál. Þannig að öll okkar samskipti eru við dómsmálaráðuneytið,“ segir Ásmundur.
Meta þurfi breytingar á lögum
Hann segir fundi hafa farið fram milli mennta- og barnamálaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins og að ráðuneytin séu í endurskoðunarferli á barnaverndar- og barnalögum. Ásmundur segir einnig að meta þurfi hvort breytingar þurfi að gera á lögum og þá hverjar.
„Þannig að fundirnir hafa svona lotið að því. Því okkur er ekki heimilt að setja okkur inn í einstaklingsmálin og erum aldrei með gögn sem tengjast þeim,“ segir hann.
Málið alfarið hjá dómsmálaráðuneytinu
Aðspurður hvort stjórnvöld hafi beitt sér beint fyrir öryggi barnanna segir hann málið vera hjá dómsmálaráðuneytinu og að sitt ráðuneyti geti ekki haft nein áhrif á gang mála.
„Mitt ráðuneyti hefur engin gögn um þetta mál þannig samskipti okkar eru öll við dómsmálaráðuneytið í þessu efni og lúta þá að því sem tengist samspili barnaverndarlaga og barnalaga. Það hafa farið fram góðir fundir þar á milli en að öðru leyti er málið alfarið hjá dómsmálaráðuneytinu,“ segir Ásmundur Einar.