Hér erum við að tala um Gabríelu Máney á bænum Mjósyndi, sem er 11 ára en frábært samband er á milli hennar og hrútsins Ástaraldins því þau fara út að ganga á hverjum degi og hlaupa oft líka saman. Gabríela er með múl á hrútnum og langt band í göngu- og hlaupaferðunum.
„Hann er rosalega gæfur og honum finnst rosalega gott að láta kemba sér og klappa sér,” segir Gabríela en hvað er skemmtilegast við hrútinn.
„Að honum finnst gaman að hlaupa og labba með mér og svo er hann rosalega góður og leyfir manni láta kemba sér og hann er bara rosalega blíður og góður.”

Og Gabríela gengur í öll störf á bænum, hún er til dæmis mjög dugleg að gefa kindunum heyið sitt. Og amma hennar er að sjálfsögðu mjög stolt af stelpunni.
„Hún hefur virkilega gaman af því að stússast hérna með okkur, sem er bara mjög gaman að hafa hana með. Hrúturinn verður tveggja vetra í vor og heitir Ástaraldin. Hann fæddist svona spakur og fór síðan á fjall og þegar hann kom heim þá var hann enn þá jafn spakur þannig að við ákváðum að leyfa honum að lifa þó að hann hefði ekki ræktunarlegan tilgang, bara út af því hvað hann er geðgóður og skemmtilegur,” segir Anna Linda Gunnarsdóttir bóndi í Mjósyndi.

En það er ekki bara sauðféð á bænum, sem Gabríela elskar því hún er líka mikil hestakona og ríður mikið út á merinni sinni og þá helst berbakt.
„Þetta er Brella, ég á hana, hún er meri og og er frá Þorlákshöfn,” segir Gabríela þegar hún var beðin um að segja aðeins frá hestinum sínum.
