„Viðburðurinn er unninn í samstarfi við vel valin hóp dansara út frá dansverkinu Hringrás, sem frumflutt var í febrúar á þessu ári. Verkið hlaut tilnefningu til fernra Grímuverðlauna og hreppti tvenn þeirra, danssýning ársins og dansari ársins,“ segir Þyri Huld.

Verkið er spunaverk, flutt af Þyri Huld Árnadóttur, Aðalheiði Halldórsdóttur, Berglindi Rafnsdóttur, Lovísu Ósk Gunnarsdóttur og Írisi Ásmundardóttur, þar sem þær dansa út frá eigin tilfinningum og líðan. Tónlist er í höndum Urðar Hákonardóttur.
Helga Lilja Magnúsdóttir hönnuður hjá Helicopter, hannaði bol út frá ljósmynd Sögu Sig sem verður til sölu á staðnum. Auk þess má finna QR -kóða á bolnum með lagi Urðar.
Allur ágóði rennur til kvenna á Gasa-svæðinu en samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu á Gasa hefur stríðið kostað meira en 18.700 manns lífið, aðallega konur og börn.



Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna í færslu Þyri Huldar hér að neðan.