Leiðtogar Húta í tilkynntu í síðustu viku að skotið yrði á öll skip sem siglt er um Rauðahaf til Ísraels, nema þeim verði einnig siglt til Palestínu með neyðaraðstoð handa íbúum þar.
Síðan þá hefur norskt tankskip orðið fyrir eldflaug Húta auk líberísks flutningaskips. Herskip frá Bandaríkjunum og Frakklandi eru á svæðinu og hafa skotið niður þó nokkra dróna og eldflaugar. Þá var breska herskipið HMS Diamond sent á svæðið fyrir tveimur vikum til að berjast gegn árásum Húta á skip sem eiga leið um Rauðahafið.
Alþjóðlegum viðskiptum ógnað
Varnarmálayfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu á X í dag að snemma í morgun hafi herskip þeirra, sem er starfandi á Rauðahafi, skotið niður fjórtán dróna sem skotið var frá yfirráðasvæði Húta í Jemen.
Drónunum var skotið niður án þess að skemmdir urðu á skipum á svæðinu eða meiðsli á fólki, samkvæmt upplýsingum frá Centcom.
In the early morning hours of December 16 (Sanna time) the US Arliegh Burke-class guided missile destroyer USS CARNEY (DDG 64), operating in the Red Sea, successfully engaged 14 unmanned aerial systems launched as a drone wave from Houthi-controlled areas of Yemen. The UAS were pic.twitter.com/Rjkzng5LxW
— U.S. Central Command (@CENTCOM) December 16, 2023
Fréttaveitan AP hefur eftir Grant Shapps varnarmálaráðherra Bretlands að herskip þeirra, HMS Diamond, hafi skotið niður dróna sem hafði verið miðað á flutningaskip. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem konunglegi sjóherinn í Bretlandi skaut niður dróna síðan í Persaflóastríðinu árið 1991.
Shapps segir árásir Húta í Jemen á flutningaskip í Rauðahafinu ógna alþjóðlegum viðskiptum og siglingaöryggi. „Bretland er enn staðráðið í að berjast gegn þessum árásum til að vernda frjálst flæði alþjóðlegra viðskipta,“ sagði hann í yfirlýsingu.
My full statement on the attack: pic.twitter.com/fEK60ywjpB
— Rt Hon Grant Shapps MP (@grantshapps) December 16, 2023
Rauðahafið er ein fjölfarnasta siglingaleið heims. Þar hafa Hútar á undanförnum vikum skotið eldflaugum og flogið sjálfsprengidrónum að nokkrum flutningaskipum, en að auki bandarískum og frönskum herskipum. Hútar hafa einnig sent sérsveitarmenn til að taka stjórn á einu skipi sem siglt var til hafnar í Jemen.
Til að komast inn í Rauðahaf úr suðri og þaðan gegnum Súes-skurðinn til inn á Miðjarðarhafið þarf að sigla skipum um Aden-flóa og Bab al-Mandab-sund. Skipin fara því mjög nærri ströndum Jemen og yfirráðasvæði Húta.
Uppfært: Áður sagði að bandaríska herskipið hefði skotið niður eldflaugar en í raun voru drónar skotnir niður.