Finnland gekk í Atlantshafsbandalagið fyrr á þessu ári, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Landamæri Finnlands og Rússlands telja um 1.340 kílómetra.
Samkomulagið er sagt munu auðvelda hernaðarsamstarf ef til átaka kemur en samkvæmt því mun Bandaríkjaher hafa óhindrað aðgengi að fimmtán svæðum í Finnlandi, þar sem hann má meðal annars geyma vopn og skotfæri.
Um er að ræða meðal annars fjóra herflugvelli, höfn og lestarsamgöngur til norðurhluta Finnlands.
Svíar undirrituðu áþekkan samning við Bandaríkin í síðustu viku, þar sem fjallað er um aðgengi Bandaríkjahers að sautján svæðum í Svíþjóð, meðal annars herflugvöllum, höfn og herbúðum.
Svíar bíða þess að verða veitt full aðild að NATÓ en hafa sætt töfum af hálfu Tyrklands og Ungverjalands.
Samkomulag Finna og Bandaríkjamanna kveður á um fasta viðveru Bandaríkjahers í landinu en engar áætlanir eru uppi um slíkt eins og stendur. Bandaríkjamenn mega hins vegar ekki nota aðstöðuna til að geyma eða flytja kjarnorku- eða efnavopn.